Hagnaður Arion banka á árinu 2016 nam 21,7 milljörðum króna samanborið við 49,7 milljarða króna árið 2015. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Höskuldur Ólafsson, bankastjóri, segir uppgjörið viðunandi.
Hann gagnrýnir stjórnvöld í landinu fyrir að framlengja bankaskattinn svonefnda og segir hann fyrst og fremst stuðla að hærra vaxtastigi í landinu. Sérstaklega víkur hann að íbúðalánamarkaði þar sem hann segir samkeppnisstöðu ekki vera jafna. „Bankar keppa á innlendum markaði við lífeyrissjóði þegar kemur að veitingu íbúðalána en lífeyrissjóðir greiða hvorki tekjuskatt né fjársýslu- eða bankaskatt. Ljóst er að samkeppnisstaðan á þessum markaði er ekki jöfn og aðgerðir stjórnvalda fela í sér einkennilega íhlutun á samkeppnismarkaði. Alls greiðir Arion banki um fimm milljarða í skatta á árinu sem fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum greiða ekki. Bankaskatturinn hefur haft takmörkuð áhrif á verðlagningu bankanna hingað til enda átti hann að vera tímabundinn. Þar sem skatturinn leggst á fjármögnun banka þá leiðir hann til kostnaðarauka hjá viðskiptavinum bankanna og stuðlar þegar allt kemur til alls að hærra vaxtastigi í landinu. Mikilvægt er að þessi skattlagning verði endurskoðuð,“ segir Höskuldur.
Arðsemi eigin fjár bankans var 10,5 prósent á árinu samanborið við 28,1 prósent árið 2015. Reiknaður hagnaður af reglulegri starfsemi nam 9,7 milljörðum króna samanborið við 14,1 milljarð á árinu 2015. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi nam 4,7% samanborið við 8.7% á árinu 2015.
Heildareignir námu 1.036,0 milljörðum króna samanborið við 1.011,0 milljarða króna í árslok 2015 og eigið fé hluthafa bankans nam 211,2 milljörðum króna, samanborið við 192,8 milljarða króna í árslok 2015. Efnahagur bankans er sterkur og á árinu 2016 var mikil áhersla lögð á trygga lausafjárstöðu í aðdraganda afnáms fjármagnshafta, segir í tilkynningu.
Eiginfjárhlutfall bankans var í árslok 27,1% en var 24,2% í árslok 2015. Hlutfall eiginfjárþáttar A hækkaði og nam 26,5% samanborið við 23,4% í árslok 2015.
Kaupþing á 87 prósent í bankanum en ríkið 13 prósent.
Tilkynning Höskuldar Ólafssonar forstjóra, vegna uppgjörsins, fer hér á eftir:
„Afkoma Arion banka á árinu 2016 var viðunandi og í takt við væntingar. Grunnstarfsemi bankans stendur vel og fjárhagsstaða bankans heldur áfram að styrkjast. Eiginfjárhlutfall bankans er 27,1% og lausafjárhlutfall 171,3%, sem er vel yfir þeim kröfum sem gerðar eru til bankans og afar sterkt í alþjóðlegum samanburði. Arion banki er í dag alhliða fjármálafyrirtæki með sterka stöðu bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði og lánasafn bankans endurspeglar það vel. Sú trausta staða sem bankinn nýtur á þeim mörkuðum sem hann starfar á og það fjölbreytta þjónustuframboð sem bankinn býður sínum viðskiptavinum felur í sér jákvæða áhættudreifingu. Sterk eiginfjárstaða leiðir til þess að umtalsverðir möguleikar eru fyrir bankann til arðgreiðslu eða annarrar ráðstöfunar eigin fjár. Árið 2016 einkenndist af fjárfestingum til framtíðar í þjónustu sem viðskiptavinir bankans óska eftir. Kaup bankans á tryggingafélaginu Verði eru gott dæmi um það en þau gengu í gegn á árinu. Þar með bætast skaðatryggingar við þjónustuframboð bankans. Staða Varðar á tryggingamarkaði er góð, félagið er með um 10% markaðshlutdeild og nýtur vinsælda meðal sinna viðskiptavina. Þjónusta Varðar er því mikilvægur liður í því að veita viðskiptavinum Arion banka alhliða fjármálaþjónustu.
Upplýsingatækni skipaði stóran sess í starfsemi bankans á árinu. Hugað var að skipan upplýsingatæknimála innan bankans og unnið að útvistunarsamningum við Nýherja sem lokið var í janúar 2017. Nýherji sem er eitt fremsta upplýsingatæknifyrirtæki landsins sér nú um rekstrarþátt upplýsingakerfa bankans. Áfram starfar öflugur hópur starfsfólks á sviði upplýsingatækni innan bankans en stærstur hluti þeirra sinnir hugbúnaðarþróun, m.a. þróun nýrra stafrænna lausna en á árinu kynnti Arion banki nokkurn fjölda nýrra stafrænna lausna. Viðskiptavinir bankans geta nú til dæmis fengið staðfest greiðslumat á aðeins nokkrum mínútum á vef Arion banka. Við munum halda ótrauð áfram á þessari braut enda óska viðskiptavinir okkar eftir því að geta sinnt sínum fjármálum þegar og þar sem þeim hentar og við munum leggja okkur fram um að koma til móts við þeirra óskir. Þannig er eftirspurn eftir fjármálaþjónustu að þróast og breytast og við leggjum áherslu á að breytast með þeirri þróun.
Á vormánuðum opnaði Arion banki útibú í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli og tók þar með yfir alla fjármálaþjónustu á flugvellinum, einu stærsta markaðstorgi landsins. Mikill vöxtur hefur verið í ferðaþjónustu hér á landi og er því um spennandi tækifæri að ræða fyrir bankann.
Dótturfélög Arion banka eru mikilvægur þáttur í stefnu og þjónustuframboði bankans. Auk Varðar þá eru sjóðastýringarfyrirtækið Stefnir og greiðsluþjónustu fyrirtækið Valitor mikilvæg dótturfélög. Stefnir er stærsta sjóðastýringafyrirtæki landsins og greiðsluþjónustufyrirtækið Valitor er í mikilli sókn í Danmörku og Bretlandi. Tekjur af alþjóðlegri starfsemi Valitor jukust um 50% á árinu 2016 og nema nú rúmlega 60% af heildartekjum fyrirtækisins. Félagið hefur um langt árabil haft umsvif á þessum mörkuðum og er að skapa sér áhugaverða stöðu. Með kaupum á Verði og fjárfestingu í erlendri starfsemi Valitor er Arion banki að styrkja enn frekar fyrirtækjasamstæðu bankans og búa undir framtíðina.
Arion banki gaf í tvígang út skuldabréf í evrum til breiðs hóps fjárfesta á árinu. Í upphafi árs 2017 gaf bankinn svo út viðbótarútgáfu við síðari útgáfuna, sem nú nemur 500 milljónum evra. Hafa kjör bankans á erlendum lánamörkuðum batnað mikið á undanförnum misserum sem er til marks um aukið traust skuldabréfafjárfesta til bankans og íslensks hagkerfis. Jafnframt hækkaði Standard & Poor´s á árinu lánshæfismat bankans úr BBB-/A-3 í BBB/A-2.
Það eru mikil vonbrigði að stjórnvöld hafi ákveðið að framlengja bankaskattinn svokallaða, sem átti að vera tímabundinn en er nú hluti af langtíma ríkisfjármálaáætlun. Bankaskattur er skattur á fjármögnun bankanna. Sambærilegur skattur leggst ekki á aðrar innlendar atvinnugreinar né á erlenda banka sem eru með umsvif hér á landi og lána til íslenskra fyrirtækja. Hér er á ferðinni sértæk skattlagning sem gerir bönkum erfitt um vik í samkeppni, bæði á innlendum markaði en einnig í samkeppni við erlend fjármálafyrirtæki á íslenskum markaði. Bankar keppa á innlendum markaði við lífeyrissjóði þegar kemur að veitingu íbúðalána en lífeyrissjóðir greiða hvorki tekjuskatt né fjársýslu- eða bankaskatt. Ljóst er að samkeppnisstaðan á þessum markaði er ekki jöfn og aðgerðir stjórnvalda fela í sér einkennilega íhlutun á samkeppnismarkaði. Alls greiðir Arion banki um fimm milljarða í skatta á árinu sem fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum greiða ekki. Bankaskatturinn hefur haft takmörkuð áhrif á verðlagningu bankanna hingað til enda átti hann að vera tímabundinn. Þar sem skatturinn leggst á fjármögnun banka þá leiðir hann til kostnaðarauka hjá viðskiptavinum bankanna og stuðlar þegar allt kemur til alls að hærra vaxtastigi í landinu. Mikilvægt er að þessi skattlagning verði endurskoðuð.
Síðastliðið sumar sendu Kaupþing ehf., sem á 87% hlutafjár Arion banka, og Arion banki frá sér tilkynningu þar sem gerð var grein fyrir því að Arion banki og Kaupþing væru að meta þá möguleika sem fyrir hendi væru varðandi eignarhlut Kaupþings í bankanum. Jafnframt var tekið fram að almennt hlutafjárútboð væri meðal þeirra kosta sem verið væri að skoða. Þessi vinna varðandi eignarhlut Kaupþings stendur enn yfir.“