Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur á grundvelli tillagna Hafrannsóknarstofnunar ákveðið að auka heildarafla íslenskra skipa á loðnu í alls 196.075 þúsund tonn á þessari vertíð. Áætlað heildarverðmæti loðnuaflans er um 17 milljarðar króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Fyrr í vetur hafði íslenskum skipum verið úthlutað rúmum 12 þúsund tonnum þannig að aukningin er rúmlega sextánföld.
Ekki verður hægt að veiða loðnuna fyrr en kjaradeila sjómanna og útgerða verður leyst. Sjómenn hafa nú verið í verkfalli í tvo mánuði. Á föstudag var birt mat á þjóðhagslegum kostnaði verkfalls sjómanna, sem unnin var fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Þar kom fram að gögn bendi til þess að framleiðsla og útflutningur á ferskum bolfiskafurðum hafi dregist saman um 40 til 55 prósent á þeim tíma sem verkfall sjómanna hefur staðið, fram til dagsins í dag. Útflutningstekjur hafa minnkað um 3,5 til 5 milljarða króna á þessum tíma, og að nokkru leyti er þetta tap sem verður ekki bætt með nýtingu kvóta seinna. Í ferskfiskframleiðslu eru mestar áhyggjur af mörkuðum fyrir íslenskar afurðir, og hættunni á því að missa hluta markaðarins annað.
Í matinu var sérstaklega tekið fram að ef verkfallið myndi standa fram á loðnuvertíðina og veiðar falla niður mun þjóðarbúið verða af tekjum sem líklega verða taldar í þúsundum milljóna króna.