Michael Flynn er hættur sem þjóðaröryggisráðgjafi Donalds J. Trump Bandaríkjaforseta, en samkvæmt fréttum Bloomberg er hann sagður hafa logið að Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, um að hann hefði ekki rætt viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum við Sergei Kislyak, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.
Keith Kellogg hefur tímabundið tekið við sem þjóðaröryggisráðgjafi.
Svo virðist sem nú liggi fyrir að Flynn hefði rætt þvinganirnar, og ýmislegt fleira, við Kislyak í aðdraganda embættistöku forsetans og einnig í nokkrum símtölum í desember. Alríkislögreglan FBI er nú með þessi samskipti Flynn við sendiherrann til rannsóknar, en óbreyttum borgurum í Bandaríkjunum er óheimilt að eiga í samskiptum um þjóðaröryggismál Bandaríkjanna við diplómata eða sendiherra frá öðrum löndum.
Staða þjóðaröryggisráðgjafa er ein æðsta staðan innan bandaríska stjórnkerfisins og vinnur hann náið með forsetanum.
Í uppsagnarbréfi sínu, sem birt hefur verið á vef Boston Globe, játar Flynn að hafa greint Mike Pence, varaforseta, ranglega frá um samskipti sín við sendiherra Rússlands. Hann segist jafnframt hafa beðið forsetann og varaforsetann afsökunar.
Flynn neitaði í fyrstu að ræða málið við fjölmiðla, þegar efasemdir um að hann væri að segja satt komu upp, en sagðist síðan ekki vera viss um það hvort hann hefði rætt við rússneska sendiherrann. Þetta leiddi til vangavelta um það hvort hann hefði greint Pence rangt frá, og atburðarásin í dag virðist hafa verið hröð og leiddi hún til þess að Flynn hætti.
Stephen Miller, ráðgjafi Trumps, neitaði fyrr í dag að svara því þegar fjölmiðlar inntu hann eftir því hvort Trump bæri traust til Flynns. Sagði hann að forsetinn sjálfur yrði að svara því. Hann hefur ekki tjáð sig opinberlega um afsögn Flynns.
Sonur Flynn, Micheal G. Flynn, hætti í teyminu hjá Donald Trump í desember síðasliðnum, fyrir að dreifa fölskum fréttum um Hillary Clinton. Þeir feðgar eru því báðir horfnir á braut og koma ekki að valdaþráðunum í Hvíta húsinu.