Á aðalfundi Borgunar sem haldinn verður síðdegis á morgun mun stjórn félagsins leggja til að fundurinn samþykki að greiddur verði allt að 4,7 milljarða króna arður til hluthafa, að því er segir í Morgunblaðinu í dag.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er búið sé að kynna helstu hluthöfum tillöguna og þeir hafi ekki hreyft mótmælum. „Er því gengið út frá því að tillagan verði samþykkt einum rómi. Hagnaður félagsins á síðasta ári er á áttunda milljarð króna og með arðgreiðslunni er því ekki gengið nærri félaginu,“ segir í umfjöllun Morgunblaðsins.
Eigendur Borgunar eru Íslandsbanki -sem ríkið á að fullu - með 63,47% hlut, Eignarhaldsfélagið Borgun sem er nú skráð fyrir 29,38% hlut og BPS sem skráð er með 5% hlut. Íslandsbanki fær því greidda frá Borgun um þrjá milljarða, Eignarhaldsfélagið Borgun fær 1,4 milljarða og BPS 235 milljónir, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Eins og áður hefur verið greint frá þá hefur Landsbankinn stefnt Borgun hf., forstjóra Borgunar hf., BPS ehf. og Eignarhaldsfélaginu Borgun slf. Í tilkynningu frá bankanum frá því í fyrra sagði:„Málið er höfðað til viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefndu. Það er mat bankans að hann hafi orðið af söluhagnaði við sölu á 31,2% hlut sínum í Borgun hf. árið 2014. Bankinn fékk ekki upplýsingar sem stefndu bjuggu yfir um að Borgun hf. ætti hlut í Visa Europe Ltd. og réttindi sem fylgdu hlutnum, þ. á m. mögulega hlutdeild í söluhagnaði Visa Europe Ltd. við nýtingu söluréttar í valréttarsamningi Visa Inc. og Visa Europe Ltd.“
Arðgreiðsla til hluthafa í Borgun vegna ársins 2015 var 2,2 milljarðar.