Samtals munu hafa verið greiddir 7,7 milljarðar króna í arðgreiðslur til eigenda Borgunar á síðustu þremur árum, verði fyrirliggjandi tillaga um arðgreiðslur samþykkt. Ef Landsbankinn, sem er nánast að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, hefði haldið 31,2 prósent hlut sínum í fyrirtækinu hefði hlutdeild hans í umræddum arðgreiðslum numið 2,4 milljörðum króna.
Landsbankinn seldi hins vegar hlut sinn til hóps einkafjárfesta og stjórnenda Borgunar í nóvember 2014 fyrir 2.184 milljónir króna. Því hafa arðgreiðslurnar sem runnið hafa til nýrra eigenda að hlutnum frá því að hann var seldur verið 218 milljónir króna fram yfir það sem greitt var fyrir hlut ríkisbankans haustið 2014.
4,7 milljarða arðgreiðsla í ár
Morgunblaðið greindi frá því í morgun að til standi að greiða hluthöfum Borgunar 4,7 milljarða króna í arðgreiðslur vegna frammistöðu fyrirtækisins á árinu 2016. Þær arðgreiðslur bætast við 800 milljóna króna greiðslur vegna ársins 2014 og 2,2 milljarða króna arðgreiðslu vegna ársins 2015. Samanlagt nema arðgreiðslurnar því 7,7 milljörðum króna. Íslandsbanki, sem er nú að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, er stærsti eigandi Borgunar, með 63,5 prósent eignarhlut. Auk þess á Eignarhaldsfélagið Borgun 29,4 prósenta hlut og BPS ehf. fimm prósent hlut. Tvö síðarnefndu stóðu að kaupum á 31,2 prósent hlut Landsbankans í Borgun haustið 2014 á tæplega 2,2 milljarða króna. Á meðal þeirra sem tóku þátt í kaupunum var félag í eigu fjárfestisins Einars Sveinssonar, föðurbróður og fyrrverandi viðskiptafélagi Bjarna Benediktssonar, nú forsætisráðherra, Stálskip ehf. og Pétur Stefánsson ehf. Fyrir 31,2 prósent eignarhlut í Borgun hafa fengist 2,4 milljarðar króna í arðgreiðslur á síðustu þremur árum. Því hafa fjárfestarnir þegar fengið útlagt kaupverð til baka og grætt 218 milljónir króna í reiðufé á þeim rúmu þremur árum sem liðin eru síðan að kaupin voru frágengin.
Kostaði Steinþór starfið
Borgunarmálið kostaði Steinþór Pálsson, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, starfið undir lok síðasta árs. Þá Ríkisendurskoðun nýverið birt svarta skýrslu um fjölmargar eignasölur Landsbankans á árunum 2010 og 2016 og gagnrýnt þær harðlega. Á meðal þeirra var salan á hlut í Borgun.
Gagnrýnin á bankann og stjórnendur hans náði hámarki í mars 2016, þegar bankaráð Landsbankans greindi frá því að Bankasýsla ríkisins hafi farið fram á það við sig að Steinþóri yrði sagt upp störfum vegna Borgunarmálsins. Enn fremur hafi stofnunin farið fram á að formaður og varaformaður bankaráðsins myndu víkja. Ráðið varð ekki við því að segja upp bankastjóra Landsbankans. Þess í stað tilkynntu fimm af sjö bankaráðsmönnum Landsbankans að þeir myndu ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Bankasýslan hafnaði því síðar að uppsögn Steinþórs hafi verið til skoðunar hjá henni.
Landsbankinn hefur stefnt Borgun hf., forstjóra Borgunar hf., BPS ehf. og Eignarhaldsfélaginu Borgun slf. vegna sölunnar á fyrirtækinu. í tilkynningu sem send var út í fyrra vegna málshöfðunarinnar sagði: „Málið er höfðað til viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefndu. Það er mat bankans að hann hafi orðið af söluhagnaði við sölu á 31,2% hlut sínum í Borgun hf. árið 2014. Bankinn fékk ekki upplýsingar sem stefndu bjuggu yfir um að Borgun hf. ætti hlut í Visa Europe Ltd. og réttindi sem fylgdu hlutnum, þ. á m. mögulega hlutdeild í söluhagnaði Visa Europe Ltd. við nýtingu söluréttar í valréttarsamningi Visa Inc. og Visa Europe Ltd.“
Hægt er að lesa tíu staðreyndir um sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun hér.