Sjómenn hafa samþykkt nýjan kjarasamning í atkvæðagreiðslu í dag, naumlega þó. Talningu lauk í Karphúsinu í Reykjavík á níunda tímanum í kvöld. Tveggja mánaða verkfalli sjómanna er því aflýst og skip halda til veiða.
Kjarasamningurinn var samþykktur með 52,4 prósent atkvæða á móti 46,9 prósent atkvæða þeirra sem höfnuðu samningnum. Forystumenn sjómannasamtaka höfðu ekki treyst sér til að spá fyrir um úrslit atkvæðagreiðslunnar enda augljóslega mjótt á munum.
1.189 greiddu atkvæði, eða rétt rúmur helmingur þeirra sem voru á kjörskrá. 623 greiddu atkvæði með nýja samningnum en 558 gegn honum.
Frá þessu er meðal annars greint á vef mbl.is. Þar segir einnig að kjörsókn hafi verið mismunandi eftir því hvar menn greiddu atkvæði; kjörsókn hafi verið allt frá 10 prósent upp í 70 prósent.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur sagst hafa verið tilbúin með lög á verkfall sjómanna fyrir helgi og tilbúin til að beita þeim ef hún teldi þörf á því. Samningar tókust með sjómönnum og útgerðarmönnum aðfaranótt laugardags og hefur nýr kjarasamningur verið í kynningu innan sjómannafélaga um allt land síðan á laugardagsmorgun. Atkvæðagreiðslan fór svo fram í dag og atkvæðin talin í kvöld.
Í dag var víða unnið að undirbúningi skipa í höfnum landsins enda liggur á að halda til veiða. Loðnuvertíðinni fer senn að ljúka, en það liggur kannski meira á að hefja veiðar eftir meira en tveggja mánaða stopp.
Verkfallinu var aflýst eftir að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var ljós, jafnvel þó samningurinn hafi verið undirritaður í fyrri nótt.
Kjarninn greindi frá því fyrr í þessum mánuði að tekjutap ríkis og sveitarfélaga af sjómannaverkfallinu væri gróft áætlað um 3,5 milljarðar króna. Það væri hins vegar að miklu leyti afturkræft tap, og innheimtist nú þegar sjómenn halda aftur til vinnu.
Gögn benda til þess að framleiðsla og útflutningur á ferskum bolfiskafurðum hafi dregist saman um 40 til 55 prósent á þeim tíma sem verkfall sjómanna hafði staðið fram til 10. febrúar. Útflutningstekjur höfðu minnkað um 3,5 til 5 milljarða króna á þeim tíma sem verkfallið hafði þá staðið, og að nokkru leyti er þetta tap sem verður ekki bætt með nýtingu kvóta seinna. Í ferskfiskframleiðslu eru mestar áhyggjur af mörkuðum fyrir íslenskar afurðir, og hættunni á því að missa hluta markaðarins annað.
Fréttin var uppfærð kl. 21:14.