Hæstiréttur hefur ómerkt dóms héraðsdóms Reykjavíkur í Marple-málinu svokallaða, vegna vanhæfis sérhæfðs meðdómara í málinu, Ásgeirs Brynjars Torfasonar. Þetta staðfestir Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari við Kjarnann.
Þetta þýðir að taka þarf málið aftur til aðalmeðferðar fyrir héraðsdómi, en þrír af fjórum sakborningum voru fundnir sekir af héraðsdómi í lok árs 2015. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði einnig áður komist að þeirri niðurstöðu að Ásgeir Brynjar þyrfti ekki að víkja sem meðdómari.
Sakborningar í Marple-málinu höfðu áður allir samþykkt Ásgeir Brynjar sem meðdómara í málinu. Hann er lektor við Háskóla Íslands og kennir fjármál, bókhald og greiningu ársreikninga. Hann lauk doktorsprófi frá Gautaborgarháskóla og fjallaði doktorsritgerð hans um flæði fjármagns í bankakerfinu en rannsóknin byggði á mismunandi aðferðum og samspili fjármála, peningahagfræði og reikningsskilareglna. Ásgeir Brynjar var einn umsækjenda um starf seðlabankastjóra þegar það var auglýst til umsóknar árið 2014.
Verjendur sakborninganna höfðu farið fram á að Ásgeir viki sæti meðal annars á þeim forsendum að hann situr í stjórn samtakanna Gagnsæis, sem hafa það yfirlýsta markmið að berjast gegn spillingu í öllum grunnstoðum samfélagsins. Auk þess voru ýmis ummæli Ásgeirs Brynjars í þjóðmálaumræðu undanfarinna ára sem og greinarskrif hans sögð draga úr hlutleysi hans sem dómara, meðal annars deilingar á Facebook.
Snýst um tilfærslu á átta milljörðum til Marple
Fjögur eru ákærð í Marple-málinu, þau Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri bankans í Lúxemborg og Skúli Þorvaldsson fjárfestir. Í héraðsdómi Reykjavíkur voru Hreiðar, Magnús og Skúli allir sakfelldir en Guðný Arna sýknuð. Hreiðar Már og Skúli hlutu sex mánaða dóma en Magnús 18 mánaða fangelsi.Hreiðar Már og Guðný Arna voru ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Magnús var ákærður fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum og Skúli var ákærður fyrir hylmingu. Hann var hins vegar sýknaður af hylmingu en sakfelldur fyrir peningaþvætti af gáleysi. Málið, eins og embætti sérstaks saksóknara lagði það upp, snýst um tilfærslu á um átta milljörðum króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple Holding, í eigu Skúla, án þess að lögmætar viðskiptalegar ákvarðanir lægju þar að baki. Deilt var um eignarhaldið á félaginu í héraðsdómi og Skúli þvertók fyrir það fyrir dómi að hafa átt félagið.