Fjármálaeftirlitið (FME) segir engar vísbendingar til staðar um að upplýsingar um kæru til héraðsaksóknara í Borgunarmálinu hafi lekið frá embættinu. Í Morgunblaðinu í morgun hafi verið látið að því liggja að „upplýsingaleki hafi átt sér stað vegna framangreindrar vísunar. Fyrir liggur að héraðssaksóknari hefur upplýst fjölmiðla um málið og engar vísbendingar um upplýsingaleka eru fyrirliggjandi.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá eftirlitinu.
Í Morgunblaðinu í morgun var haft eftir Erlendi Magnússyni, stjórnarformanni Borgunar, að það væri undarleg stjórnsýsla að hálfu Fjármálaeftirlitsins að upplýsa Borgun ekki um að máli fyrirtækisins, sem hafði verið til athugunar hjá eftirlitinu, hefði verið vísað til héraðssaksóknara vegna gruns um saknæmt athæfi. Þessu hafnar Fjármálaeftirlitið og telur þvert á móti eðlilega stjórnsýslu að viðtakandi ábendingar eða vísunar meti hvernig eðlilegt er að upplýsa almenning og hlutaðeigandi um tilvist eða efni máls. Einnig sé rétt að benda á í þessu samhengi að stjórnsýslulög gilda almennt ekki um rannsókn sakamála.
Kjarninn greindi frá því í febrúar að Fjármálaeftirlitið hefði komist að þeirri niðurstöðu, eftir athugun sem stóð í um níu mánuði, að framkvæmd, verklag og eftirlit Borgunar í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vegna færsluhirðingar félagsins erlendis uppfylli ekki með viðunandi hætti þær megin kröfur sem gerðar eru í lögum. Borgun voru gefnir tveir mánuðir til að ljúka úrbótum vegna athugasemda eftirlitsins. Auk þess var málinu vísað til embættis héraðssaksóknara síðastliðinn mánudag, þar sem grunur leikur á um saknæmt athæfi sem við liggur refsing samkvæmt lögum.
Borgun hefur verið að færa skarpt út kvíarnar á öðrum mörkuðum en þeim íslenska á síðustu árum. Á meðal þeirra landa sem fyrirtækið hefur aukið mjög hlutdeild sína í færsluhirðingu eru Bretland, Ungverjaland og Tékkland. Kjarninn hefur fengið það staðfest að á meðal þeirra viðskiptavina sem Borgun hefur tekið að sér að þjónusta séu aðilar sem selji aðgang að klámi, fjárhættuspilum eða selji lyf á netinu. Allt eru þetta athæfi sem er ólöglegt að stunda á Íslandi en Borgun er hins vegar frjálst að veita stoðþjónustu gagnvart í öðrum löndum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Slíkum viðskiptum fylgir þó mikil orðsporsáhætta.
Borgun sendi frá sér yfirlýsingu á miðvikudag í síðustu viku þar sem fyrirtækið segir að það telji sig hafa farið að lögum og framkvæmt áreiðanleikakannanir á viðskiptavinum samkvæmt verklagshefð á Evrópska efnahagssvæðinu. Þar hafnaði Borgun því einnig að stóraukin umsvif Borgunar í öðrum löndum tengdust vafasömum viðskiptum sem önnur kortafyrirtæki vildu ekki sinna. Í yfirlýsingunni var því hins vegar ekki hafnað að Borgun hafi tekið að sér slík viðskipti, heldur einungis sagt að hin stórauknu umsvif væru ekki vegna þeirra.