Ferðamönnum sem komu til Íslands fjölgaði um 47,3 prósent á milli febrúarmánaðar 2016 og saman mánaðar 2017. Ljóst er að sú aukning náði ekki nema að hluta til stærsta íslenska flugfélagsins, Icelandair. Í tilkynningu frá Icelandair Group, móðurfélags Icelandair, til Kauphallar Íslands um flutningstölur félagsins í febrúar síðastliðnum kemur fram að farþegar Icelandair voru 11 prósent fleiri en þeir voru í sama mánuði 2016.
Það er mun minna en sem nemur framboðsaukningu Icelandair, en hún nam 18 prósentum milli ára. Sætanýting dróst því saman úr 79 prósentum í 75,9 prósent.
Sömu sögu er að segja af Flugfélagi Íslands, sem er í eigu Icelandair Group og flýgur innanlands á Íslandi og til alþjóðlegra áfangastaða eins og Grænlands, Þórshafnar, Belfast og Aberdeen í Skotlandi. Framboð félagsins jókst um 29 prósent milli ára en sætanýting dróst verulega saman, úr 77,7 prósent í febrúar 2016 í 68,2 prósent í síðasta mánuði. Þá fækkaði seldum blokktímum í leiguflugi á vegum Icelandair Group um sjö prósent milli ára og fraktflutningar drógust saman um 13 prósent. Samdrátturinn í fraktflutningum skýrist þó aðallega á því að verkfall sjómanna hafði í för með sér mikinn samdrátt í útflutningi á fiski.
Flutningstölurnar voru þó ekki allar slæmar hjá Icelandair Group. Hótelstarfsemi félagsins gengur betur en í febrúar í fyrra. Framboðið á gistinóttum hefur aukist, fleiri nætur eru seldar og því er herbergjanýtingin betri, fer úr 84 prósent í 85,6 prósent.
Til samanburðar flutti WOW air 170 prósent fleiri farþega í febrúar 2017 en í sama mánuði ári áður. Sætanýting félagsins var 87 prósent, sem er sama nýting og var í febrúar 2016.
Gríðarlegar lækkanir á skömmum tíma
Mikil ólga hefur verið í kringum Icelandair Group frá því að félagið sendi frá sér afkomuviðvörun í lok janúar. Síðan þá hefur markaðsvirði bréfa í félaginu hríðfallið. Alls hafa bréf í Icelandair Group fallið um 37 prósent frá því seint í janúar. Bréfin hafa lækkað um 62 prósent frá því í apríl 2016.
Innan Icelandair telja stjórnendur, samkvæmt upplýsingum Kjarnans, að dýfan hafi verið allt of mikil miðað við hver staða félagsins er og orðrómur hefur verið á markaði um að einhverjir hafi beitt sér sérstaklega fyrir því að lækka virði bréfa í Icelandair í viðskiptalegum tilgangi. Á meðal þeirra sem oftast voru nefndir í því samhengi er Kvika banki. Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, neitaði því í viðtali við Viðskiptablaðið 23. febrúar að bankinn hefði að nokkru leyti unnið markvisst að því að lækka bréf í Icelandair.
Á aðalfundi í síðustu viku var kjörin ný stjórn Icelandair Group. Sigurður Helgason, sem hafði verið stjórnarformaður um árabil, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Nýja stjórn Icelandair Group skipa þau Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Georg Lúðvíksson, Katrín Olga Jóhannesdóttir, Ómar Benediktsson og Úlfar Steindórsson. Úlfar, sem er forstjóri Toyota á Íslandi, er jafnframt nýr stjórnarformaður félagsins.