Tekið er fyrir mál Samherja gegn Seðlabanka Íslands í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, en fyrirtækið krefst þess með áskorun fyrir dómi að fá afhentar upplýsingar úr skýrslu Lagastofnunar Háskóla Íslands um málefni sem snúa að rannsóknum og aðgerðum Seðlabanka Íslands gagnvart fyrirtækinu.
Í september 2015 felldi embætti sérstaks saksóknara niður mál gegn Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, og þremur öðrum lykilstarfsmönnum fyrirtækisins, sem Seðlabanki Íslands hafði vísað til embættisins. Seðlabankinn vísaði málinu til embættisins á grundvelli þess að þeir hefðu brotið gegn lögum um gjaldeyrismál.
Málið hófst með húsleitum í starfsstöð Samherja á Akureyri og í Reykjavík, í mars 2012.
Eftir að málinu lauk, hefur Samherji sótt á Seðlabankann og hefur Þorsteinn Már ítrekað sagt, að einhver verði að axla ábyrgð vegna þessara aðgerða gegn Samherja, þar sem fyrirtækið hefði ekki brotið gegn lögum, eins og nú hefur verið staðfest.
Þorsteinn Már hefur þegar kært tvo yfirmenn í Seðlabankanum vegna málsins til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, þau Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóra og Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans.
Byggir kæran meðal annars á því að þau hafi ekki aðeins komið „rangfærslum, villandi málatilbúnaði og ófullnægjandi upplýsingum“ til leiðar heldur einnig komist undan því að koma „fullnægjandi upplýsingum til embættis sérstaks saksóknara við rannsókn í sakamáli embættisins“.
Í svari Garðars Gíslasonar, lögmanns Samherja, við fyrirspurn vegna fyrirtökunnar sem er á dagskrá dómstóla í dag, segir Garðar að hann hafi fundið sig knúinn til að leita til dómstóla, til að nálgast fyrrnefnd gögn, það er upplýsingar úr skýrslu Lagastofnunar Háskóla Íslands.
„Ég hef hins vegar ítrekað krafið Seðlabankann um afrit af skýrslunni, án árangurs. Fékk synjun um að fá hana í heild á þeim forsendum að í henni væri að finna upplýsingar sem háðar væru þagnarskyldu. Var á hinn bóginn játaður réttur til að fá aðgang að þeim hlutum skýrslunnar sem geymdu upplýsingar um umbjóðanda minn (Samherja). Var mér kynnt að bankinn myndi fara yfir skýrsluna með það í huga – og lofað að ég skyldi fá þann útdrátt sendan. Ekkert hefur hins vegar borist – þótt liðnir séu mánuðir. Því varð úr að ég lagði fram áskorun fyrir héraðsdómi 9. febrúar sl. á hendur Seðlabankanum um að leggja skýrsluna fram í því máli sem nú er rekið fyrir dómi á hendur bankanum til ógildingar á því litla sem eftir stendur af öllum þessum skelfilega málatilbúnaði Seðlabankans. Það kemur í ljós á morgun [í dag] hvort og þá hvernig Seðlabankinn mun bregðast við þeirri áskorun,“ segir í Garðar í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Málið verður tekið fyrir klukkan 11:15 í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Lögmaður Seðlabanka Íslands er Steinar Þór Guðgeirsson hrl. Þessi misserin er hann einnig að störfum fyrir íslenska ríkið þegar kemur að sölu á eignum Lindarhvols ehf., sem tók við tugmilljarða eignum frá slitabúum föllnu bankanna sem þau lögðu ríkinu til eignar sem hluta af uppgjöri þeirra. Þá greindi DV frá því í fyrra að Steinar hefði verið skipaður eftirlitsmaður stjórnvalda í söluferlinu á Arion banka.