Evrópska lögreglan Europol hefur varað við því að fjöldi glæpagengja í Evrópu hafi aukist upp í að minnsta kosti fimm þúsund. Sérstaklega sé ógnvekjandi aukning í smygli á fólki og netárásum á fyrirtæki þar sem gögn eru tekin í gíslingu.
Europol segir að búið sé að bera kennsl á 17.500 einstaklinga sem eru grunaðir um að tengjast ólöglegu smygli á fólki yfir landamæri, til viðbótar við 50 þúsund manns sem búið var að bera kennsl á árið 2014. Guardian greinir frá þessu. Rob Wainwright, yfirmaður Europol, segir að greinileg merki sjáist um að glæpamenn hafi séð aukin tækifæri til að græða peninga á því að smygla flótta- og förufólki.
Þó er það svo að tækni er það sem helst gerir glæpamönnum kleift að brjóta lög, samkvæmt skýrslu Europol. Það séu nokkurs konar nýsköpunarfyrirtæki í glæpum sem fari um djúpnetið. Þar sé mikið framboð á fölsuðum skjölum, margir fíkniefnasalar noti það og mikil aukning sé að verða í ransomware – sem er þegar gögn eru tekin í gíslingu gegn lausnargjaldi.
Hingað til hafi tækni af þessu tagi fyrst og fremst beinst gegn litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Wainwright segir hins vegar að tæknigetu skipulagðra glæpasamtaka sé alltaf að fara fram og brátt muni þau geta komist í gegnum varnir stórra fyrirtækja eins og banka. „Stóru samsteypurnar þurfa að taka sömu ákvarðanir og litlu fyrirtækin gera í dag: Borgarðu lausnargjaldið eða ekki? Það er erfið ákvörðun og margt í því sem þarf að hafa í huga.“
Europol segir einnig að þetta kalli á viðbrögð frá löggjöfum, um það hvernig lögregluyfirvöld geti borið kennsl á glæpamenn sem feli sig með þessum hætti. Réttindasamtök hafa aftur á móti áhyggjur af því að lagabreytingar gætu leitt til þess að lögregluyfirvöld beini sjónum sínum að pólitískum aðgerðasinnu, lögfræðingum og blaðamönnum.