Leiðtogar Bandaríkjanna funduðu undanfarna daga með leiðtogum Þýskalands og Kína, bæði í Washington og í Peking. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, heimsótti Donald Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsið og Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna fundaði með starfsbróður sínum í Kína og forseta Kína, Xi Jinping.
Í Washington báru málefni Atlantshafsbandalagsins (NATO) hæst en Donald Trump hefur haft mörg orð um hernaðarsamstarfið síðan hann var kjörinn forseti í vetur. Var þetta fyrsti fundur þeirra Merkel og Trump. Mismunandi áherslur leiðtogana voru augljósar á blaðamannafundinum sem þau héldu eftir fund sinn, jafnvel þó skilaboðin hafi stillt af og flutt í takt.
Angela Merkel hefur ekki farið leynt með skoðanir sínar á Donald Trump og hans hugmyndum um gang heimsmálanna. Að sama skapi hefur Trump ekki dregið úr þegar hann talar um Merkel í Twitter-skilaboðum sínum. Fyrirfram var þess vegna búist við að fundurinn yrði stirður, enda þyrfti að taka á samskiptamálum áður en hægt væri að ræða stjórnmálin.
Enginn einangrunarsinni
„Það er alltaf gott að tala við hvort annað um hvort annað, heldur en ekki,“ sagði Angela Merkel á blaðamannafundinum. Merkel talaði á þýsku. Hún undirstrikaði áherslur sínar í málefnum flóttafólks, hnattvæðingar og viðskiptasamninga sem væru til hagsbóta fyrir báða aðila.
Á sinni ensku talaði Trump hins vegar áfam um „róttæk íslömsk hryðjuverk“ og ræddi um hugmyndir sínar um að „gera Ameríku frábæra aftur“. Hann sagðist ekki vera einangrunarsinni og sagðist trúa á frjáls viðskipti.
„Á fundinum ítrekaði ég styrkan stuðning minn við NATO og mikilvægi þess að bandamenn okkar í bandalaginu borgi sinn hluta af kostnaði við varnirnar,“ sagði Trump. „Margar þjóðir skulda háar fjárhæðir fyrir varnir síðustu ára og það er mjög ósanngjarnt gagnvart Bandaríkjunum. Þessar þjóðir verða að borga það sem þær skulda.“
Auk Bandaríkjanna og Þýskalands eru 28 þjóðir í NATO. Þeirra á meðal er Ísland, skráð sem ein stofnþjóða hernaðarbandalagsins.
Í kjölfar fundarins flaug forsetinn til Mar-a-Lago þar sem hann dvaldi á einkasetri sínu um helgina, þar sem hann spilaði golf á Trump International Golf Course. Á gærmorgun skrifaði Trump á Twitter að jafnvel þó fundur þeirra Merkel hafi verið frábær þá skuldi Þýskaland enn þá háar fjárhæðir til NATO og Bandaríkjanna.
Þýskaland segist ekkert skulda
Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, hefur hafnað því að Þýskaland skuldi Bandaríkjunum „háar upphæðir“. Í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í dag, sunnudag, segir hún það einfaldlega rangt. „Það er enginn skuldareikningur hjá NATO.“
Samkvæmt sáttmála NATO skuldbinda allar bandalagsþjóðirnar sig til þess að eyða tveimur prósentum af ríkisútgjöldum til varnarmála. Von der Leyen segir rangt að öll þau útgjöld þurfi að renna til NATO.
„Útgjöld til varnarmála renna einnig til friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna, evrópsk verkefni og í framlög til baráttunnar gegn hryðjuverkum Íslamska ríkisins,“ segir í yfirlýsingunni.
Vandræðaleg stemmning
Í evrópskum og bandarískum fjölmiðlum hefur verið fjallað um þann vandræðabrag sem var á fundi þeirra Merkels og Trumps. Tíst forsetans undirstrikuðu enn frekar þá tilfinningu sem blaðamenn og ljósmyndarar fönguðu á göngum Hvíta hússins.
Tvö atriði hafa staðið upp úr. Í einn skiptið mistókst leiðtogunum að sviðsetja handaband á skrifstofu forsetans, jafnvel þó auðvelt sé að heyra köll ljósmyndarana – og jafnvel þó Merkel hafi sagt það berum orðum við Trump að ljósmyndararnir hafi viljað handaband. Þetta augnablik má sjá að myndbandinu hér að neðan.
Sean Spicer, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, hefur vikið fyrirspurnum blaðamanna um handabandið sem aldrei varð og sagt að Trump hafi einfaldlega ekki heyrt köll ljósmyndarana.
Hitt augnablikið vakti augljós og óvænt viðbrögð Angelu Merkel. Trump sagði þá að þau hefðu bæði verið hleruð í tíð Baracks Obama, forvera Trumps í starfi forseta. „Við eigum í það minnsta eitthvað sameiginlegt,“ sagði Trump við Merkel og uppskar hlátur viðstaddra og undrandi viðbrögð Merkel.
Tillerson liðkar fyrir samskiptum
Á meðan undirbjó Rex Tillerson, utanríkisráðherra Donalds Trump, fundi sína með Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, og Xi Jinpin, forseta Kína. Með fundunum var ætlunin að liðka fyrir samskiptum ríkjanna áður en Xi Jinping heimsækir Trump í Bandaríkjunum.
Fréttastofa Reuters greinir frá því að fulltrúar bæði Kína og Bandaríkjanna hafi náð að halda sig við handritið, þó Donald Trump hafi haft gagnrýnt stjórnvöld í Kína á Twitter, rétt áður en Tillerson lenti í Peking.
Fundurinn hafi gengið vel og vel fór á með bandarískum og kínverskum ráðamönnum, jafnvel þó fá skref hafi verið stigin fram á við í þessum samræðum.
„Ef litið er á jákvæðu hliðarnar þá var enginn vandræðagangur í samskiptunum eins og í Washington,“ skrifa blaðamenn Reuters.