Lánshæfsimatsfyrirtækið Standard & Poor’s lækkaði lánshæfiseinkunn Och-Ziff Capital Management Group niður í ruslflokk í gær, samkvæmt umfjöllun á vef fyrirtækisins en greint var frá lækkuninni á Marketwatch. Greinandi Standard & Poor’s segir í greiningu sinni að rekstur félagsins hafi versnað að undanförnu, vegna minnkandi eigna í stýringu, og þóknanatekjur dregist saman því samhliða. Er einkunnin því færð úr BB+ í BB. Horfurnar til framtíðar eru taldar neikvæðar.
Sjóður á vegum Och-Ziff keypti 6,6 prósent hlut í Arion banka í lokuðu útboði en greint var frá þeim viðskiptum daginn áður en lánshæfiseinkunnin var lækkuð, sem var í gær. Tilkynningin um viðskiptin með hlutinn í Arion banka var send út síðastliðið sunnudagskvöld.
Í fréttatilkynningu Arion banka vegna kaupanna, segir að Och-Ziff sé eitt af stærstu fyrirtækjum heims á sviði sérhæfðrar eignastýringar og er virði eigna í stýringu þess um 34 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 3.500 milljörðum króna.
Aðalstöðvar Och-Ziff eru í New York en fyrirtækið er einnig með skrifstofur í London, Hong Kong, Mumbai, Beijing, Shanghai og Houston. Meðal fjárfesta Och-Ziff eru lífeyrissjóðir, sjóðasjóðir, stofnanir og styrktarsjóðir, fyrirtæki og aðrar stofnanir, einkabankar og fjársterkir einstaklingar. Nánari greining á eigendahópnum kom ekki fram í tilkynningu Arion banka.
Þeir fjórir erlendu sjóðir, sem tilkynnt var um að hefðu keypt tæplega 30 prósent hlut í Arion banka, eru meðal stærstu eigenda Kaupþings.Taconic, Och-Ziff, Attestor og Goldman Sachs, sem keyptu samtals 29,18 prósent hlut í Arion banka af Kaupþingi á 48,8 milljarða króna, eiga að mestu hlutina í gegnum sjóði.
Í hverjum sjóði eru margir hlutdeildarskirteinishafar og til að hægt sé að rekja eignarhaldið á hlutdeildarskírteini áfram þarf einstaklingur að eiga yfir tíu prósent í umræddum sjóði.