Árásarmaðurinn sem varð þremur að bana í London í gær hafði verið til rannsóknar hjá bresku rannsóknarlögreglunni MI5. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, greindi þingmönnum frá þessu á þinginu í morgun.
Lögregla telur enn að maðurinn hafi verið einn að verki og hafi verið innblásinn af öðrum hryðjuverkaárásum í Evrópu nýlega. „Maðurinn var fæddur í Bretlandi og fyrir einhverjum árum síðan var hann rannsakaður af MI5 í tengslum við áhyggjur af ofbeldi og ofstæki,“ sagði May meðal annars. Hún sagði málið gamalt og að hann hafi ekki lengur verið inni í myndinni hjá yfirvöldum.
Átta einstaklingar hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn lögreglunnar á sex stöðum víða um Bretland, meðal annars í Birmingham og í London. Guardian greinir frá því að bíllinn, sem notaður var til að keyra á gangandi vegfarendur á Westminster-brúnni, hafi verið leigður frá Enterprise í Birmingham.
Þingmenn úr öllum flokkum hafa lofað Theresu May á þingfundinum sem nú er í gangi. Hún þykir hafa talað fyrir alla þjóðina með yfirlýsingum sínum um málið. Meðal þess sem hún hefur sagt er að besta leiðin til að svara hryðjuverkunum sé að fólk haldi áfram með lífið óbreytt. Þannig sé hryðjuverkamönnum neitað um sigur. „Það er svar sem segir þeim körlum og konum sem breiða út þetta hatur og illsku: þið munið ekki sigra okkur.“ Bæði May og þingmenn allra flokka hafa einnig lagt áherslu á að ekki megi láta hryðjuverk skipa fólki í fylkingar eftir trú eða öðru. Það þurfi að standa vörð um lýðræðið og gildi Bretlands.