Arion banki hefur birt upplýsingar um endanlega eigendur bankans á vef sínum. Bankinn óskaði eftir því að fá upplýsingar um endanlega eigendur þeirra aðila sem keyptu 29,18 prósent hlut í bankanum um síðustu helgi, og ættu umfram eitt prósent hlutafjár.
Kaupskil eru enn stærsti eigandi bankans og fer með 57,9 prósent hlut. Bankasýsla ríkisins á 13,0 prósent en restina eiga fjórir vogunarsjóðir sem Kjarninn hefur fjallað um á undanförnum dögum. Enginn sjóðanna á meira en 10 prósent hlut.
Í frétt á vef Arion banka kemur fram að enginn einstaklingur eigi meira en tíu prósent af hlutafé, beint eða óbeint, í þeim félögum sem fara með eignarhluti í Arion banka.
Hluthafar og stærð eignahluta þeirra er:
- Kaupskil ehf. – 57,9 prósent
- Bankasýsla ríkisins – 13,0 prósent
- TCA New Sidecar III s.a.r.l (Taconic Capital Advisors) – 9,999 prósent
- Trinity Investments Desinate Activity Company (Attestor Capital LLP) – 9,999 prósent
- Sculptor Investments s.a.r.l (Félag tengt Och-Ziff Capital Managment Group) – 6,6 prósent
- ELQ Investors II Ltd. (Goldman Sachs International) – 2,6 prósent
Í útskýringum við eignarhluti vogunnarsjóðanna segir um Attestor Capital LLP að tveir menn hafi veruleg áhrif á stefnu félagsins í samræmi við uppbyggingu eignarhalds félagsins. Þeir eru Jan Peters og Anke Heydenreich.
Um Sculptor Investments segir að það sé óbeint í fullri eigu fjárfestingasjóða sem stýrt sé af Och-Ziff Capital Management Group. Þar hafi Daniel S. Och heimild á grundvelli eignarhluta og umboðssamninga til þess að fara með rúmlega helmings atkvæðisrétts samanlagt gagnvart öllum hlutum sem gefnir eru út af Och-Ziff Capital Management Group LLC sem er móðurfélag Och-Ziff Capital Management Group.
Um Tactonic Capital Advisors segir að því félagi sé stýrt af Frank Brosens, en að TCA New Sidecar III hafi ákvörðunarvald um fjárfestingar Tactonic.