Samkeppniseftirlitið er fylgjandi því að núgildandi fyrirkomulag við sölu áfengis verði endurskoðað. Þetta kemur fram í umsögn eftirlitsins um áfengisfrumvarpið svokallaða, sem nú er til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.
Samkeppniseftirlitið tekur ekki að öðru leyti afstöðu til frumvarpsins sem er til meðferðar, en segist fylgjandi því að núgildandi fyrirkomulag verði endurskoðað. Ástæðan er sú að áfengiseinkasala hefur gjörbreyst á nokkrum árum, án þess þó að reglum hafi verið breytt.
„Hefur áfengiseinkasala á skömmum tíma þróast úr því að vera stunduð á fáum stöðum á landinu þar sem varan var afhent yfir borð, yfir í dreifðar og nýtískulegar verslanir, sem bjóða upp á mikið aðgengi neytenda, en leggja miklar takmarkanir á framleiðendur og innflytjendur. Þessar miklu breytingar á áfengissölu hafa átt sér stað án mikillar stefnumarkandi umræðu, hvorki um undirliggjandi lýðheilsumarkmið, né áhrif á samkeppni,“ segir í umsögn Samkeppniseftirlitsins.
Með hliðsjón af þessu vill eftirlitið að reglurnar séu endurskoðaðar. Mikilvægt sé að löggjafinn reyni að vernda samfélagið og einstaklinga frá þeirri vá sem neysla áfengis geti haft í för með sér, en til þess eigi að velja þær aðferðir sem skerði frjálsa samkeppni sem minnst og falli best að samfélaginu hverju sinni.
Eftirlitið áréttar það í umsögn sinni að þótt markmið samkeppnislaga endurspegli þá staðreynd að samkeppni í viðskiptum sé bæði æskileg og nauðsynleg sé það viðurkennt að í sumum tilvikum þurfi að víkja frá frjálsri samkeppni til að vernda tiltekna almannahagsmuni. Lögin um einkasölu áfengis séu dæmi um slík frávik frá samkeppni, og reglurnar eigi sér langa sögu og spretti úr allt öðru verslunarumhverfi en því sem nú er við lýði.