Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbanka Íslands, segir að Halldór Ásgrímsson, þá ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hafi kallað sig á fund og hundskammað fyrir að leggja Ólaf Ólafsson og tengda aðila í einelti. Það einelti hafi birst í áróðri um að aðkoma Hauck & Aufhäuser að kaupunum í Búnaðarbankanum væru blekking. Björgólfur sagði enn fremur að hefðu verið „rosaleg framsóknartengsl“ milli aðila og að „Ólafur Ólafsson virtist hafa alltaf beinan aðgang að Halldóri og einhvern veginn, og var alltaf að magna upp einhver leiðindi.“
Þetta kemur fram í afriti af skýrslu sem tekin var af Björgólfi 8. janúar 2010 í tengslum við vinnu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið. Þetta afrit var birt í fyrsta sinn opinberlega í skýrslunni um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum, sem birt var í gær.
Segir Halldór hafa hundskammað sig
Í stóru skýrslunni um aðstæður hrunsins, sem birt var í apríl 2010, var þessi skýrsla af Björgólfi ekki birt með sama hætti og í skýrslunni um Hauck & Aufhäuser.
Þar sagði Björgólfur að það hefði verið „óskaplega mikið hatur“ milli Búnaðarbankans/Kaupþings og Landsbanka Íslands, sem hann hefði aldrei skilið. Skýringin hafi verið sú að Kaupþingsmenn töldu að aðilar innan Landsbankans hefðu komið því í umræðuna að tilboð Hauck & Aufhäuser hefði verið einhvers konar „falstilboð frá Þýskalandi“.
Síðan segir Björgólfur: „ Ég man bara eftir því að ég var kallaður til ákveðins aðila, hann hundskammaði mig fyrir að vera að leggja þá í einelti, þessa góðu drengi, Ólaf Ólafsson og félaga út af þessu máli í Þýskalandi, þetta væri allt hreint og klárt og þetta var nú Halldór Ásgrímsson sem að gerði það.“ Halldór Ásgrímsson var á þessum árum formaður Framsóknarflokksins, utanríkisráðherra og forsætisráðherra á árunum 2004 til 2006. Hann lést árið 2015.
Björgólfur sagði við nefndina að honum hefði brugðið mikið við þetta. „Ég man ég sagði við hann [Halldór Ásgrímsson]: Heyrðu, má ég skrifa þetta eftir þér? Af því að hann var, þetta var nú mánudagur kl. 9, erfið helgi og ég fékk miklar skammir fyrir það að ég stæði fyrir einhverjum miklum áróðri, eða við, um þann hóp sem hefði keypt Búnaðarbankann að það væri hvergi allt greitt með erlendu fjármagni. Ég hafði ekki hugmynd um það.“
Ólafur alltaf með beinan aðgang
Aðspurður sagði Björgólfur að þessi fundur hafi líklega átt sér stað árið 2004. Hann sagði að Halldór hefði sagt að „þeir [væru] alltaf að kvarta í sig yfir að við[...]hefðum haldið uppi áróðri að[...]þessi þýski banki væri bara falskt identity.“
Svo sagði Björgölfur: „Þessi tengsl, það voru rosaleg framsóknartengsl þarna inni, alveg ótrúleg. Ég veit ekkert um flokkapólitík eða neitt en þetta var, virtist vera, Ólafur Ólafsson virtist hafa alltaf beinan aðgang að Halldóri og einhvern veginn, og var alltaf að magna upp einhver leiðindi.“
Kroll gerði skýrslu um Rússlandsmál
Björgólfur sagðist einnig vita til þess að Ólafur Ólafsson og aðilar tengdir honum hafi látið taka saman skýrslu um „okkur til þess að reyna að finna eitthvað mjög bjagað um okkur í Rússlandi. [...]Það var nú bara heimsþekkt fyrirtæki sem var fengið til þess, og það var Kroll“.
Að sögn Björgólfs hafi maður sem unnið hafi umrædda skýrslu hins vegar komið að máli við sig og beðið hann um að lesa skýrsluna um sig og sína viðskiptafélaga, sem og hann gerði. „Búnaðarbankinn var með okkur á heilanum alla tíð[...]Það er alveg sama hvort það voriu Bakkabræður [Ágúst og Lýður Guðmundssynir] eða hinir, Ólafur verstur, að við vorum, einhvern veginn, þeim finnst við fá alltof góða umfjöllun og það var alltaf, þetta var mjög slæmt, að þetta var mjög óþægilegt.“
Halldór hafði samband við Ríkisendurskoðanda
Halldór Ásgrímsson sat einnig í ráðherranefnd um einkavæðingu þegar hlutur ríkisins í Búnaðarbankanum og Landsbanka Íslands voru seldir á árunum 2002 og 2003.
Eftir að Vilhjálmur Bjarnason, nú þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafði vakið upp spurningar um raunverulega aðkomu Hauck & Aufhäuser í kaupunum var Ríkisendurskoðun fengin til að skoða sérstaklega athugasemdir sínar.
Í skýrslunni um Hauck & Aufhäuser er sérstaklega fjallað um þessa skoðun og sagt að í umræðum vegna þeirra þingmála á Alþingi um þátttöku Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans á Alþingi hafi komið fram í máli þáverandi forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, í þingræðu á Alþingi 20. febrúar 2006 að hann hefði haft samband við ríkisendurskoðanda þann morgun vegna málsins og innt hann eftir því „hvort eitthvað nýtt væri í þessu máli“. Halldór kvað ríkisendurskoðanda hafa svarað því til að svo væri ekki og rakti nánar samræður þeirra af þessu tilefni.
Í skýrslunni segir að þessu næst hafi Ríkisendurskoðun átt fund með Vilhjálmi Bjarnasyni miðvikudaginn 22. febrúar 2006 þar sem hann kynnti athugasemdir sínar um þetta málefni og röksemdir fyrir þeim og lagði fram gögn þar að lútandi.