Michael Flynn, sem var þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna frá 20. janúar síðastliðnum til 13. febrúar, hefur farið fram á það við alríkislögregluna FBI og þingnefnd Bandaríkjaþings að hann fái friðhelgi, og verði ekki saksóttur, ef hann á gefa vitnisburð. Wall Street Journal greindi fyrst frá málinu í gær, og fylgdu fjölmiðlar síðan í kjölfarið.
FBI eða þingið hafa ekki fallast á kröfur hans ennþá, samkvæmt umfjöllun WSJ.
Flynn er einn þeirra sem nú er til rannsóknar vegna tengsla hans við Rússnesk stjórnvöld, ekki síst á meðan kosningabarátta Donald Trump og Hillary Clinton stóð sem hæst á síðasta ári.
Flynn á að baki langan feril í Bandaríkjaher, og var um tíma einn af yfirmönnum leyniþjónustu hersins. Hann hefur bæði unnið fyrir Demókrata og Repúblikana á meira en þriggja áratuga ferli.
Flynn var gert að segja af sér sem þjóðaröryggisráðgjafi eftir að Mike Pence, varaforseti, og Donald Trump, forseti, fóru fram á það. Kornið sem fyllti mælinn voru upplýsingar um að Flynn hefði rætt við sendiherra Rússlands, Sergey Kislyak, um viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna á hendur Rússum. Komið hefur fram að Flynn hefði endurtekið átt í samskiptum við Rússa, í aðdraganda kosninganna 8. Nóvember í fyrra.
Rannsókn FBI og Bandaríkjaþings miðast að því að upplýsa um það hvort Rússar hefðu haft óeðlileg áhrif á kosningabaráttuna og framkvæmd kosninganna í fyrra, en einnig hver nákvæmlega tengsl Rússa inn í bandarískt stjórnkerfi.
Dómsmálaráðherrann, Jeff Sessions, er einnig til rannsóknar vegna þessara tengsla, en hann hefur gert lítið úr þeim til þessa. Hann var engu að síður staðinn að lygum í Bandaríkjaþingi þegar hann neitaði því að hafa hitt erindreka Rússlands í Bandaríkjunum. Gögn sem FBI bjó yfir hafa hins vegar sannað að hann hafi í það minnsta í tvígang hitt Kislyak á fundum á síðasta ári.
Trump hefur varið Sessions og sagt hann hafa misskilið spurninguna, og því hafi svarið verið á líkt og Sessions sagði.
Mikill titringur hefur verið á Bandaríkjaþingi vegna rannsóknarinnar á tengslunum við Rússa, samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal. Búist er við því að hún verði í forgangi hjá þinginu á næstu mánuðum, en lengra gæti verið í það að FBI ljúki sinni rannsókn endanlega.
Mál er tengjast Michael Flynn voru til umræðu í nýjast hlaðvarpsþætti Kvikunnar, sem ritstjórn Kjarnans heldur úti.