Systurnar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand hafa verið dæmdar í 12 mánaða fangelsi fyrir fjárkúgun og tilraun til fjárkúgunar. Hluti refsingar er skilorðsbundinn. Þær voru meðal annars dæmdar fyrir að reyna að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrrverandi forsætisráðherra. Frá þessu er greint á mbl.is.
Systurnar voru handteknar í byrjun júní 2015 eftir að greint hafði verið frá því að þær hefðu reynt að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra.
Samkvæmt reifarakenndri frásögn fjölmiðla áttu þær að hafa sent handskrifað bréf heim til Sigmundar Davíðs þar sem þess var krafist að hann greiddi þeim um átta milljónir króna. Annars myndu upplýsingar sem áttu að vera viðkvæmar fyrir hann að verða gerðar opinberar.
Málið var strax tilkynnt til lögreglu sem réðst í umfangsmiklar aðgerðir sem leiddu til þess að systurnar voru handteknar í Hafnarfirði, sunnan Vallahverfis, á föstudag. Í fjárkúgunarbréfinu stóð að forsætisráðherra ætti að skilja peningana sem þær vildu fá á þeim stað.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kom fram að þær hefðu báðar játað verknaðinn við yfirheyrslur og þeim sleppt að þeim loknum. Systurnar geta átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi fyrir fjárkúgunina sem þær hafa játað á sig. Rannsókn málsins er nú lokið, um fimm mánuðum eftir að það kom upp.
DV greindi frá því í júníbyrjun 2015 að bréfið frá Hlín og Malín hafi hafist á blíðum nótum en fljótlega hafi tilgangur þess komið í ljós. Sigmundi Davíð og fjölskyldu hans hafi verið verulega brugðið þegar handskrifað bréf með meintri fjárkúgun barst á heimili þeirra. Í frásögn DV sagði að í bréfinu hafi verið farið fram á ákveðna upphæð auk þess sem nákvæm lýsing var á því hvar ætti að afhenda fjármunina. Sá staður var við Krísuvíkurveg, sunnan Vallahverfis í Hafnarfirði. Samkvæmt DV var lögð þung áhersla það í lok bréfsins á að afleiðingarnar yrðu alvarlegar ef að haft yrði samband við lögreglu.
Annar maður kærði þær síðar fyrir fjárkúgun og héraðsdómur dæmdi þær sekar í því máli í dag.
Hægt er að lesa ítarlega skýringu um þessa reyfarakenndu frásögn hér.