948 einstaklingar eru nú á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavíkurborg, samkvæmt nýjum tölum úr gagnasafni velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Það sem af er ári hafa fimmtíu einstaklingar bæst við biðlista eftir félagslegu húsnæði í borginni.
Í byrjun síðasta árs voru 723 einstaklingar á biðlista, og í lok ársins voru 874 á listanum. Inn á milli tókst að fækka á biðlistanum milli mánaða, enda var 165 félagslegum íbúðum úthlutað á síðasta ári, fleiri en á undanförnum árum. Frá nóvember á síðasta ári hefur hins vegar fjölgað hratt á biðlistanum.
Langstærsti hópurinn sem er á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík eru einhleypir karlmenn. Meira en helmingur þeirra sem eru á biðlista eftir slíku húsnæði tilheyra þessum hópi, eða 495 talsins af 948.
Næststærsti hópurinn sem bíður eftir félagslegu leiguhúsnæði eru einhleypar konur, 231 talsins. Þriðji stærsti hópurinn sem bíður eftir íbúð eru einstæðar mæður, en þær eru 167. 25 hjón eða sambýlisfólk með börn bíða félagslegs leiguhúsnæðis og 17 barnlaus hjón eða sambýlisfólk. Þrettán einstæðir feður eru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði.
Biðlistar eftir félagslegu húsnæði hafa lengst í borginni frá árinu 2013, en gagnasafn borgarinnar nær aftur til byrjunar ársins 2013 hvað þetta varðar. Nú eru sem fyrr segir 948 á biðlista eftir félagslegu húsnæði í borginni, en fjöldinn fór fyrst yfir 900 í febrúar síðastliðnum, þegar listinn taldi 904.
Mest er eftirspurnin eftir eins til tveggja herbergja íbúðum, en 717 eru nú á biðlista eftir slíkum íbúðum. 151 er að bíða eftir þriggja herbergja íbúð og 80 bíða eftir fjögurra herbergja íbúð eða stærri.
Biðlistinn eftir íbúðum er langlengstur í Vesturbæ, miðborg og Hlíðum, þar sem 320 mans eru á biðlista eftir íbúðum. 216 eru nú á biðlista eftir íbúð í Laugardal og Háaleiti og 163 í Breiðholti. 126 eru á biðlista eftir íbúð í Árbæ og Grafarholti og 123 í Grafarvogi og á Kjalarnesi.
Biðlistarnir eru flokkaðir niður eftir þjónustumiðstöðvum borgarinnar. Lengdin á biðlistunum hefur breyst nokkuð frá því árið 2013, en þá voru fleiri á biðlista eftir íbúðum í Breiðholti en í Vesturbæ, miðborg og Hlíðum. Árið 2014 fækkaði á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Breiðholti úr 230 í upphafi árs í 160 í lok árs, á meðan biðlistinn í Vesturbæ, miðborg og Hlíðum lengdist.