Benedikt Einarsson segir að ekki hafi verið minnst einu orði á þá hugsanlegu virðisaukningu sem hlutdeild Borgunar í söluandvirði Visa Europe gæti skilað nýjum eigendum í fyrirtækinu, þegar kaup á hlut ríkisins í Borgun voru kynnt fyrir honum og föður hans, Einari Sveinssyni, í október 2014. Benedikt segir að þeir feðgar, sem ákváðu að taka þátt í kaupunum, hafi fyrst heyrt af þeirri mögulegu virðisaukningu í janúar 2016. Þetta kemur fram í svari Benedikts við fyrirspurn Kjarnans.
Eignarhaldsfélagið Borgun keypti 31,2 prósent hlut ríkisbankans Landsbankans í Borgun 24. nóvember 2014 á 2,2 milljarða króna. Hópurinn samanstóð af fjárfestum og stjórnendum Borgunar en sá sem fór fyrir verkefninu var fjárfestirinn Magnús Magnússon. Kaupin fóru fram bak við luktar dyr, þar sem enginn annar en hópurinn sem sýndi áhuga á kaupunum fékk að reyna að kaupa hlutinn. Á meðal fjárfesta sem tóku þátt í kaupunum var félagið P126 ehf., í eigu Charamino Holdings Limited sem skráð er á Lúxemborg. Eigandi þess félags er áðurnefndur Einar Sveinsson.
Greint frá virðisaukningu í janúar 2016
Morgunblaðið greindi frá því 20. janúar 2016 um að kaup Visa Inc. á Visa Europe gætu skilað Borgun og öðru íslensku greiðslukortafyrirtæki, Valitor, á annan tug milljarða króna.
Kjarninn greindi frá því fyrr á þessu ári að ef Landsbankinn hefði haldið 31,2 prósent eignarhlut sínum í Borgun, í stað þess að selja hann haustið 2014, væri virði hlutarins að minnsta kosti um 5,9 milljarða króna virði, samkvæmt síðasta verðmati sem gert var á hlutnum. Auk þess hefði bankinn fengið rúmlega 2,4 milljarða króna greidda í arð. Samanlagt hefði hluturinn því getað skilað bankanum að minnsta kosti 8,3 milljörðum króna ef hann hefði verið seldur nú og Landsbankinn notið síðustu þriggja arðgreiðslna sem greiddar hafa verið út úr Borgun. Þar skipti mestu máli sú virðisaukning sem varð á félaginu samhliða kaupum Visa Inc. á Visa Europe. Landsbankinn hefur höfðað mál vegna þessa og telur að upplýsingum hafi verið leynt frá bankanum í söluferlinu.
Tekur undir gagnrýni á söluna
Benedikt fjallaði um aðkomu sína og föður síns að kaupunum í Borgun í aðsendri grein í Fréttablaðinu í gær. Sú aðkoma hefur verið gagnrýnd sökum þess að þeir eru náfrændur Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, sem var fjármála- og efnahagsráðherra þegar salan á hlut ríkisbankans í Borgun fór fram.
Í greininni segir Benedikt að mikið hafi verið gert úr hlut föður síns í þeim viðskiptum, en félag í hans eigu keypti um það bil fimm prósent hlut í Borgun í þeim. „Nú þegar rykið hefur sest eftir moldviðrið sem þyrlað var upp og staðreyndirnar liggja fyrir þá er öllum ljóst sem málið skoða að Bjarni hafði hvorki aðkomu né vitneskju um fjárfestingu föður míns. Bjarni, þá sem fjármálaráðherra, hafði heldur ekkert um sölu á hlut bankans í Borgun að segja. Ákvörðun um slíkt var einungis á forræði bankastjóra og bankaráðsins. Það hefur enda enginn sem að sölunni kom haldið öðru fram.“
Það megi taka undir gagnrýni á það hvernig Landsbankinn stóð að söluferlinu á Borgun. Það hafi enda leitt til þess að breytingar voru gerðar á stjórn bankans og að Steinþóri Pálssyni, fyrrverandi bankastjóra, var sagt upp störfum.
„Hvað snýr að kaupverði hlutanna í Borgun þá hafði hvorki ég né faðir minn neina aðkomu að samningaviðræðum við bankann. Í október 2014 fengum við kynningu hjá forsvarsmanni fjárfestahópsins þar sem okkur var kynnt verkefnið, en undirbúningur kaupanna hafði þá staðið yfir frá því í mars sama ár. Á þeim tíma sem við fengum kynninguna lá verðið og kaupsamningur fyrir og beðið var endanlegrar staðfestingar bankaráðs. Fjárfestahópurinn var á þessum tíma enn í mótun og faðir minn var beðinn um að taka þátt í kaupunum, sem og hann gerði.“
Kjarninn sendi í kjölfarið fyrirspurn á Benedikt og spurði hvort að upplýsingar um mögulega virðisaukningu vegna kaupa Visa Inc. á Visa Europe hefðu komið fram á þeim kynningarfundi sem haldin var fyrir þá feðga í október 2014, mánuði áður en kaupin voru frágengin. Í svari hans segir að það hafi ekki verið minnst á þau einu orði. „Við heyrðum fyrst af því í janúar 2016,“ sagði Benedikt enn fremur.