Það er óhætt að segja að rafbíla- og raftækniframleiðandinn Tesla Motors og tæknirisinn Amazon séu nú að ganga í gegnum mikið vaxtarskeið. Tesla varð í dag verðmætasti bílaframleiðandi Bandaríkjanna og fór verðmiðinn í fyrsta skipti yfir 50 milljarða Bandaríkjadala. Næst þar á eftir kemur General Motors og síðan Ford, sem er 45 milljarða Bandaríkjadala virði. Í byrjun ársins var fyrirtækið 35 milljarða Bandaríkjadala virði og því hefur aukning markaðsvirðis fyrirtækisins verið mikil á undanförnum þremur mánuðum, eða sem nemur um 15 milljörðum Bandaríkjadala, um 1.700 milljörðum króna.
Eigandinn hagnast
Stærsti eigandinn, forstjórinn og stofnandinn, Elon Musk, hefur hagnast verulega á þessum mikla uppgangi markaðsvirðis enda meðal stærstu eigenda félagsins. Hans eignir eru nú metnar upp á 18,4 milljarða Bandaríkjadala.
Reiknað er með því að næsta ár verði stærsta ár í sögu Tesla en þá mun Tesla Model 3 bíllinn fara í almenna sölu en um 500 þúsund bílar hafa þegar verið forpantaðir. Bíllinn mun kosta frá 35 þúsund Bandaríkjadölum, eða sem nemur tæplega fjórum milljónum króna.
Vaxtaráformin á fullu hjá Amazon
Annar tæknirisi hefur hefur upplifað mikinn vöxt að undanförnu er Amazon en markaðsvirði þess er nú 431 milljarður Bandaríkjadala og hefur það aukist um meira 100 milljarða Bandaríkjadala á innan við einu ári, eða sem nemur um 11 þúsund milljörðum króna. Amazon er langsamlega verðmætasta smásölufyrirtæki heimsins en næst á eftir því kemur Walmart, en markaðsvirði þess er 222 milljarðar Bandaríkjadala.
Á næstu 12 mánuðum hyggst félagið ráða 80 þúsund nýja starfsmenn, en nú þegar hefur vaxtaráætlun fyrirtækisins, sem samþykkt var á hluthafafundi félagsins í fyrra, gengið eftir og gott betur og hafa 20 þúsund nýir starfsmenn verið ráðnir á síðustu tveimur mánuðum.
Fyrirtækið hyggst opna tugi vöruhúsa um öll Bandaríkin til að styrkja lagerstarfsemi sína vegna mikils vaxtar í verslun á netinu. Þá er fyrirtækið einnig að undirbúa innreið fyrirtækis í smásölu í verslunum og verður þar stuðst við gervigreind að miklu leyti, þar sem viðskiptavinir munu geta gengið inn í verslunina, sótt vöruna og svo gengið út, án þess að þurfa að fara á afgreiðslukassa. App frá Amazon, Amazon Go, mun tryggja að notendaupplýsingar um viðskiptin geymast og eru síðan skráð á kreditkort viðkomandi viðskiptavinar í gegnum Amazon svæði viðkomandi.
Ein slík verslun hefur verið opnuð í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Seattle, en á næstunni verða fleiri verslanir opnaðar.
Eigandinn að verða sá ríkasti?
Næst ríksti maður heims í lok síðasta árs, Jeff Bezos, hefur hagnast ævintýralega á uppgangi félagsins en hann á ennþá 17 prósent eignarhlut í félaginu. Í lok síðasta árs voru eignir hans metnar á 73 milljarða Bandaríkjadala en frá þeim tíma hefur eignarhlutur hans hækkað mikið, og eru eignir hans nú metnar á 77,7 milljarða Bandaríkjadala.
Nágranni Bezos við Lake Washington á Seattle svæðinu, Bill Gates, er ríkasti maður heimsins en eignir hans eru nú metnar á 87 milljarða Bandaríkjadala, samkvæmt uppfærðum lista Forbes.