Störfum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu fjölgaði hlutfallslega mest hér á landi á tímabilinu frá febrúar 2016 til febrúar 2017. Störfum í sjávarútvegi fækkaði hins vegar á sama tímabili.
Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands um launagreiðendur og launþega.
Á þessu tólf mánaða tímabili voru að jafnaði tæplega sautján þúsund launagreiðendur á Íslandi, og hafði þeim fjölgað um 210 eða 1,3 prósent frá síðustu tólf mánuðum þar á undan. Á sama tímabili greiddu launagreiðendur að meðaltali um 181.300 einstaklingum laun, sem er aukning um 4,8 prósent og 8.300 einstaklinga miðað við árið þar á undan.
Launþegum hefur fjölgað mikið milli ára í byggingariðnaði og ferðaþjónustu, líkt og fyrr segir. Fjölgunin nemur 17 prósentum í byggingariðnaði. Í febrúar á þessu ári voru 10.700 launþegar í byggingariðnaðinum og 2.423 launagreiðendur.
Í ferðaþjónustu fjölgaði launþegum um 14 prósent á einu ári, og í febrúar störfuðu um 23.400 manns í einkennandi greinum ferðaþjónustu. Þetta er fjölgun upp á 2.900 manns, en á sama tíma fjölgaði launþegum í heildina um sex þúsund. Það þýðir að tæplega helmingur nýrra starfa sem urðu til á þessu tímabili voru í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar.
Launþegum í sjávarútvegi fækkaði um 1.600 á tímabilinu, sem er 17 prósenta fækkun á einu ári.