Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur aldrei fengið fleiri beiðnir um leit að týndum ungmennum síðan verkefnið hófst hjá lögreglunni í nóvember 2014. Þetta kemur fram í nýbirtri afbrotatölfræði lögreglunnar fyrir mars 2017.
Alls bárust 32 beiðnir um leit að týndum börnum og ungmennum í mars, samanborið við 19 beiðnir í febrúar. Sé það borið saman við meðaltal síðustu þriggja mánaða þá er fjöldinn þó nokkur, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
„Það sem af er ári hafa borist 53 prósent fleiri leitarbeiðnir en bárust að meðaltali síðustu tvö árin á undan,“ segir í skýrslunni sem lögreglan birti á vefnum í dag.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru engar augljósar skýringar á því hvers vegna svo mörg leitarverkefni lentu á borði lögreglunnar í mars. Marsmánuður sé vanalega nokkuð þungur mánuður hvað þetta varðar.
„Nei, ég hef ekki neinar skýringar á þessu,“ skrifar Guðmundur Fylkisson aðalvarðstjóri í svari til Kjarnans um það hvernig standi á því að svo margra barna og ungmenna hafi verið leitað.
705 tilkynningar bárust um hegningarlagabrot í mars og eru það nokkru fleiri tilkynningar en bárust í febrúar. Heimilisafbrotamálum fjölgaði nokkuð á milli mánaða og skýrir það aukningu í fjölda ofbeldisbrota sem komu inn á borð lögreglunnar.