Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi flugumferðarstjóri á Akureyri, segir það vera réttlætanlegt að taka skipulagsvald af sveitarstjórnum ef tilgangurinn er að gæta að öryggishagsmunum þjóðfélagsins í heild.
Þetta sagði Njáll Trausti í umræðunum um flugvöllinn í Vatnsmýri í Vikulokunum á Rás 1. Tilefni umræðanna er umræða sem Logi Már Einarsson, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, hóf í hlaðvarpsþættinum Aðförinni hér á Kjarnanum um síðustu helgi.
Logi Már líkti veru flugvallarins við það ef hann sjálfur myndi reyna að troða sér í fermingarfötin. Nú væri þrengt að Reykjavíkurflugvelli í skipulagi höfuðborgarsvæðisins og að nauðsynlegt væri að undirbúa það vel hvað tæki við þegar flugvellinum yrði lokað. Honum yrði lokað á endanum hvort sem okkur líkaði það betur eða verr.
Njáll Trausti hefur verið virkur í samfélaginu Hjartað í Vatnsmýri. Hann segir að orðræða þess samfélags hafa í meginatriðum snúist um að flugvöllurinn verði að fá að vera á meðan það er ekki búið að finna betri eða sambærilega lausn á högun innanlandsflugs og sjúkraflugs hér á landi.
Bjarkey Olsen, þingkona Vinstri grænna, var einnig gestur Vikulokanna. Hún benti á að mikilvægt væri að allir rökræddu sama hlutinn um sama hlutinn. Hún spurði svo Njál Trausta hvort honum þætti eðlilegt að skipulagsvaldið yrði tekið úr hendi Reykjavíkurborgar.
„Ef að sérhagsmunir eins sveitarfélags ganga gegn hagsmunum heils þjóðfélags þá er það eðlilegt,“ svaraði Njáll Trausti. Hann sagði einnig að það væri framhjá því lítandi að slík aðgerð gæfi fordæmi fyrir önnur sveitarfélög. „Alþingi á að gæta öryggishagsmunum þjóðfélagsins um fram allt annað. Við náum aldrei að lenda þessu máli fyrr en Alþingi fer að skoða málið.“