Ólafur Ólafsson hefur ekki sent formlega beiðni til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að fá að koma fyrir hana og tjá sig vegna kaupa S-hópsins á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum snemma árs 2013. Því hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvenær hann muni koma fyrir nefndina, hvort að sá fundur verði opin blaða- og fréttamönnum né hvort að streymt verði frá honum á vef Alþingis svo að almenningur geti fylgst með. Þetta segir Jón Steindór Valdimarsson, varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem mun stýra vinnu nefndarinnar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á stórum hluta í Búnaðarbanka Íslands.
Brynjar Níelsson, formaður nefndarinnar, mun ekki taka þátt í þeirri vinnu þar sem hann hefur samþykkt að víkja í málinu. Ástæðan er sú að Brynjar var um tíma verjandi Bjarka Diego í sakamáli sem snerist um meint efnahagsbrot. Bjarki er einn þeirra sem gegndi lykilhlutverki í þeirri fléttu sem ofin var í kringum kaupin, og snerist um að blekkja stjórnvöld, almenning og fjölmiðla til að halda að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser væri á meðal kaupenda að Búnaðarbankanum. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar sýndi að bankinn var leppur.
Ólafur sendi fréttatilkynningu frá sér fyrir viku síðan þar sem hann sagðist hafa farið þess á leit við Brynjar Níelsson, formann nefndarinnar, að fá að koma fyrir hana til að „kasta ljósi á þær nýju upplýsingar sem ég hafði ekki fengið aðgang að áður og niðurstöður eru dregnar af í rannsóknarskýrslunni. Réttur vettvangur til að bregðast við er að mínu mati fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, enda var niðurstaða rannsóknarnefndarinnar kynnt þar.“
Jón Steindór segir hins vegar að engin formleg beiðni hafi borist nefndinni frá Ólafi. Hann hafi vissulega haft samband við Brynjar en að öðru leyti hafi Ólafur „eingöngu sent út fréttatilkynningu á fjölmiðla um sínar óskir.“ Hann segir að málið sé í raun enn á undirbúningsstigi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og að nefndin hafi sett sér það markmið að vanda til verka og ganga skipulega til þeirra. Þess vegna muni hún flýta sér hægt. „Verklag nefndarinnar, við úrvinnslu skýrslunnar og önnur þau verkefni sem þingsályktunin sem við erum að vinna málið í samræmi við, er í mótun. Þar með talin málsmeðferð, hugsanlegir gestir og svo framvegis.“
Kom fyrir dóm og sagði ósatt
Ólafur fékk tækifæri til að koma sinni hlið á málinu á framfæri á meðan að á vinnu rannsóknarnefndarinnar stóð. Eftir að hafa neitað að mæta til skýrslutöku var honum á endanum gert að mæta fyrir dóm og svara spurningum rannsóknarnefndarinnar. Þar sagði Ólafur að eftir því sem hann best vissi væru allar þær upplýsingar sem íslenska ríkinu voru veittar um kaupin, og kynntar voru í fjölmiðlum samhliða kaupum, verið réttar og nákvæmar, að því er hann best vissi.
Gögn sem nefndin hafði undir höndum sýndu hins vegar með óyggjandi hætti fram á að svo er ekki. Ólafur var leiðandi í þeirri fléttu sem ofin var í kringum kaupin, samkvæmt niðurstöðum nefndarinnar. Í henni fólst að Hauck & Aufhäuser var aldrei raunverulegur eigandi að hlutnum, Kaupþing fjármagnaði viðskiptin en ekki þýski bankinn, Ólafur Ólafsson og líklega Kaupþing eða stjórnendur þess högnuðust um milljarða króna á fléttunni og Hauck & Aufhäuser var tryggt algjört skaðleysi.
Þá sagði Finnur Vilhjálmsson, starfsmaður nefndarinnar, á blaðamannafundi sem haldin var vegna kynningar á skýrslunni: „Ólafur Ólafsson stýrði verkefninu fra A til Ö.“