Ávinningur af starfsemi starfsendurhæfingarsjóðsins VIRK var 13,6 milljarðar króna árið 2016, samkvæmt skýrslu sem Vigfús Ásgeirsson, tryggingastærðfærðingur hjá Talnakönnun hf., vann fyrir VIRK.
Í tilkynningu frá VIRK segir að reiknaður meðalsparnaður á hvern útskrifaðan einstakling nam 12,2 milljónum króna á árinu 2016 og jókst hann frá fyrra ári þegar meðalsparnaðurinn var metinn 10,2 milljónir króna.
VIRK hefur það hlutverk að efla starfsgetu einstaklinga í kjölfar veikinda eða slysa með árangursríkum hætti og hjálpa einstaklingum að fóta sig á vinnumarkaði. Starfsendurhæfingarsjóðurinn starfar eftir lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða frá 2012, en var stofnaður árið 2008 sem sjálfseignarstofnun af samtökum stéttarfélaga og atvinnurekenda. Lífeyrissjóðir bættust svo í hópinn árið 2012 og ríkisvaldið hefur haft aðkomu að sjóðnum síðan 2015.
Þetta er fjórða árið í röð sem VIRK lætur meta árangur og ávinning af starfseminni út frá ópersónugreinanlegum upplýsingum. Ávinningur af starfsemi VIRK hefur aukist nokkuð síðan Talnakönnun gerði fyrstu greininguna árið 2013 þegar ávinningur af starfi VIRK var 9,7 milljarðar króna.
Rekstarkostnaður VIRK nam 2,4 milljörðum króna á árinu 2016 og hefur hækkað úr 1,3 milljörðum árið 2013.
Í samantekt sem birt er á vef VIRK sem dagsett er apríl 2017 segir að 11.500 einstaklingar hafi leitað til starfsendurhæfingarsjóðisns frá upphafi og að nú séu rúmlega 2.100 einstaklingar sem þyggi starfsendurhæfingarþjónustu um allt land. Andlegir sjúkdómar eða stoðkerfisvandamál hrjá 70 prósent allra skjólstæðinga VIRK. 6.500 einstaklingar hafa útskrifast frá VIRK og meira en 70 prósent þeirra virkir á vinnumarkaði við útskrift.
Ársfundur VIRK er haldinn á Grand Hótel mánudaginn 24. apríl þar sem Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, mun flytja ávarp.