Hundrað hermenn frá Afganistan eru látnir eftir árás Talibana á herstöð í landinu. Árásin var nær alveg fyrirvaralaus en hún átti sér stað inn í lokaðri herstöð skammt frá borginni Mazar-e-Sharif.
Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC náðu þrír liðsmenn Talibana að komast inn á svæði herstöðvarinnar, klæddir eins og hermenn, og hófu skothríð skömmu eftir bænatíma hermanna.
Þetta er mannskæðasta árás sem afganski herinn hefur orðið fyrir í baráttu við Talibana og var vettvangi árásarinn líkt við blóðbað.
„Þegar ég gekk út úr moskunni hófu þrír menn í hermannafatnaði að skjóta og einnig var skotið úr herökutæki. Það er ljóst að þeir hafa notið aðstoðar einhverra í herstöðinni, því annars hefðu þeir aldrei komist inn,“ segir Mohammad Hussain, sem er afganskur hermaður sem særðist í árásinni, í samtali við BBC.
Í það minnsta tíu liðsmenn Talibana féllu, eftir tveggja klukkustunda skotbardaga, og var einn liðsmaður þeirra handsamaður, og er nú í haldi yfirvalda. Á meðal þess sem er verið að rannsaka er hvernig árásarmennirnir komu sér inn á svæðið og hvort þeir hafi átt sér vitorðsmenn innan hers Afganistan.