Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt úr gildi stjórnvaldssekt sem Seðlabanki Íslands lagði á útgerðarfyrirtækið Samherja fyrir brot á gjaldeyrislögum í fyrra. Sektin hljóðaði upp á fimmtán milljónir króna. Seðlabankinn þarf einnig að greiða fjórar milljónir króna í málskostnað.
Mál Seðlabankans og Samherja á sér margra ára forsögu, en það hófst með húsleitum Seðlabankans í höfuðstöðvum Samherja bæði í Reykjavík og á Akureyri í mars árið 2012. Leitirnar voru gerðar vegna gruns um brot á lögum um gjaldeyrismál. Í framhaldinu kærði Seðlabankinn Samherja og tengd fyrirtæki fyrir brot gegn gjaldeyrislögum til sérstaks saksóknara, en svo kom í ljós að ekki var heimilt samkvæmt laganna bókstaf að kæra fyrirtækin fyrir brot á lögunum sem um ræddi. Þá kærði bankinn einstaklinga innan fyrirtækisins, það er Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra fyrirtækisins, og þrjá aðra lykilstarfsmenn fyrir að brjóta gegn gjaldeyrishöftunum.
Í september 2015 felldi embætti sérstaks saksóknara niður mál gegn þeim. Eftir að málinu lauk, hefur Samherji sótt á Seðlabankann og hefur Þorsteinn Már ítrekað sagt að einhver verði að axla ábyrgð vegna þessara aðgerða gegn Samherja, þar sem fyrirtækið hefði ekki brotið gegn lögum.
Eftir að málinu lauk hjá sérstökum saksóknara skoðaði Seðlabankinn hvort ástæða væri til að beita stjórnvaldssektum, og lagði svo fram sáttatilboð við Samherja síðasta sumar. Það hljóðaði upp á 8,5 milljóna sekt í ríkissjóð, en Samherji hafnaði því boði. Þá tók bankinn þá stjórnvaldsákvörðun að Samherji skyldi greiða 15 milljónir króna.
Í málinu fyrir héraðsdómi hélt Samherji því fram að Már Guðmundsson seðlabankastjóri og aðrir starfsmenn bankans hefðu verið vanhæfir til meðferðar máls á hendur fyrirtækinu. Starfsfólk bankans, með bankastjórann „í broddi fylkingar, hafi reitt afar hátt til höggs í rannsókn sinni og öllum málatilbúnaði“ allt frá því að húsleit var gerð árið 2012. Þá hafi Már tjáð sig opinberlega um meint brot Samherja.
Þá sagði Samherji að Seðlabankinn hefði verið búinn að fella niður málið á hendur fyrirtækinu og því hafi verið um að ræða endurupptöku máls sem fáist ekki staðist. Í þriðja lagi hafi sektin ekki byggst á gildum refsiheimildum, og í fjórða lagi að efnislega hafi ekki verið til að dreifa brotum gegn gjaldeyrislögunum.
Héraðsdómur Reykjavíkur segir að ekkert hafi komið fram í málinu um að ákvörðun Seðlabankans um að hefja meðferð málsins að nýju í fyrra hafi byggt á nýjum gögnum eða vísbendingum um slík gögn. Þó hefði verið ríkt tilefni til slíks rökstuðnings. Bankinn hafi ekki sýnt fram á fyrir dómi á hvaða grundvelli hafi verið heimilt að taka málið upp.
Þorsteinn Már hefur einnig kært tvo yfirmenn í Seðlabankanum vegna málsins til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, þau Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóra og Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans.
Byggir kæran meðal annars á því að þau hafi ekki aðeins komið „rangfærslum, villandi málatilbúnaði og ófullnægjandi upplýsingum“ til leiðar heldur einnig komist undan því að koma „fullnægjandi upplýsingum til embættis sérstaks saksóknara við rannsókn í sakamáli embættisins“.