Persónulegur kostnaður blaðamanns Reuters í vinnuferð til Norður-Kóreu á dögunum nam um 2.500 Bandaríkjadölum, eða því sem sem samsvarar fimm ára meðallaunum í Norður-Kóreu. Upphæðin nemur hátt í 300 þúsund íslenskum krónum.
Blaðamaðurinn Sue-Lin Wong var í hópi 121 blaðamanna sem voru staddir í Pjongjang, höfuðborg Norður-Kóreu, fyrir rúmri viku. Blaðamönnunum var boðið að fylgjast með skipulögðum hátíðarhöldum sem haldin voru vegna fæðingarafmælis Kim Il-sung.
Ef dollararnir sem Wong greiddi er reiknuð á svartamarkaðsgengi norður-kóreska gjaldmiðilsins won nemur fjárhæðin hins vegar launum meðal Norður-Kóreu búa í um 420 ár.
Öll viðskipti blaðamannanna fóru fram á genginu 100 norður-kóresk won á hvern dollar. Heimamaður í Norður-Kóreu tjáði Wong að svartamarkaðsgengið á dollaranum væri mikið hærra; einhvers staðar á bilinu 8.400 og 8.300 won á hvern dollar og að gengið sveiflaðist til eftir því hversu langt væri liðið frá síðustu kjarnorkutilraun.
Kóreuskagi á suðupunkti
Norður-kóreski herinn stóð fyrir umfangsmikilli heræfingu í dag. Á sama tíma komu bandarískir kafbátar að höfn í Suður-Kóreu. Reuters greinir einnig frá þessu. Bandaríkjaher hefur aukið vígbúnað sinn á Kóreuskaganum vegna gruns um að her Norður-Kóreu myndi standa fyrir kjarnorkutilraun í tilefni afmælis norður-kóreska hersins. Engar tilraunarsprengingar hafa verið gerðar en skotið var úr langdrægum fallbyssum í æfingarskyni í Wonsan-héraði. Þar er flugherstöðin sem langdræg flugskeyti hafa verið prófuð.
Eins og komið hefur fram í umfjöllun Kjarnans hefur tilraunum Norður-Kóreu með langdræg flugskeyti fjölgað á undanförnum mánuðum. Nágrannar þeirra í Japan og Suður-Kóreu hafa fordæmt tilraunirnar harðlega og krafist aðgerða af hálfu Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamfélagsins. Donald J. Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur boðað alla þingmenn öldungardeildarinna til fundar í Hvíta húsinu á morgun, miðvikudag, þar sem fara á yfir þróun mála á Kóreuskaga.
Í yfirlýsingum Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, segir að öllum hernaðartilburðum Bandaríkjahers verði mætt af hörku og við minnstu tilraun til árásar muni stríð brjótast út.