Umsóknum hælisleitenda um vernd á Íslandis hefur fjölgað um 571 prósent frá árinu 2015. 263 einstaklingar hafa sótt um vernd á Íslandi síðan um áramót, að því er kemur fram í frétt á vef Útlendingastofnunar.
Í umfjöllun Kjarnans um fjölgun umsókna um vernd fyrri hluta árs 2016 kom fram að fjöldi umsókna hafði fjórfaldast miðað við sama tíma árið 2015. Þessi fjölgun heldur áfram og var fjöldi umsókna fyrstu þrjá mánuði ársins rúmlega 60 prósent miðað við sama tíma í fyrra.
Afgreiðslutími lengist
Það hefur tekið lengri tíma að afgreiða þær umsóknir sem borist hafa á árinu en á sama tíma í fyrra. Meðal afgreiðslutími fyrsta ársfjórðung 2017 var 122 dagar en var ekki nema 104 dagar árið 2016. Lenging afgreiðslutímans skýrist fyrst og fremst af þeim fjölda umsókna sem bárust á síðustu fjórum mánuðum síðasta árs, að því er fram kemur í frétt á vef Útlendingastofnunar.
Vegna aukins fjölda mála hjá forgangsteymi Útlendingastofnunar þurfti að flytja starfsfólk milli teyma innan stofnunarinnar. Þessar tilfærslur juku afgreiðslutíma hefðbundinna mála. Ný útlendingalög tóku einnig gildi um áramótin og olli innleiðing þeirra og tilheyrandi breytingar á verklagi töfum. Einnig setti það strik í reikninginn að algengt var að umsóknir væru dregnar til baka skömmu áður en niðurstöður fengust í málunum.
Sótt um og horfið á brott
Í marsmánuði fengust niðurstöður í 141 máli. Rúmlega helmingur umsóknanna var ekki tekin til efnislegrar meðferðar. Í flestum þeim tilfellum sem umsókn hlaut ekki efnislega meðferð var hún dregin formlega til baka eða umsækjandi lét sig hverfa. Þá voru 32 umsóknir afgreiddar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og tveir umsækjendur höfðu þegar fengið vernd annars staðar.
Fjöldi þeirra sem fengu vernd eða dvalarleyfi á Íslandi í marsmánuði var 22 sem er um 35 prósent þeirra mála sem teknar voru til efnislegrar meðferðar og 15,6 prósent þeirra umsókna sem afgreiddar voru í þeim mánuði. Flestir þeir umsækjendur sem voru samþykktir eru frá Afganistan og Írak.