Stjórnendur United Silicon í Helguvík gera ekki athugasemdir við þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að heimila ekki gangsetningu kísilverksmiðju fyrirtækisins að nýju nema að höfðu samráði við stofnunina. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
United Silicon sendi Umhverfisstofnun bréf um þetta í gær, sem svar við ákvörðun stofnunarinnar fyrir viku síðan. Félagið lýsti þar eindregnum vilja til að starfa með Umhverfisstofnun að endurræsingu verksmiðjunnar og hvetur stofnunina til að hafa beina aðkomu. Fyrirtækið muni greiða fyrir kostnað sem stofnunin gæti orðið fyrir við það að hafa beina aðkomu að ræsingu og rannsóknum.
Í bréfinu frá United Silicon segir að helsta vandamál félagsins frá upphafi rekstursins megi rekja til lítils rekstrartíma ljósbogaofnsins, sem stafar af tíðum bilunum í jaðarbúnaði ofnsins og hefur leitt til fjölmargra ofnstöðvana og keyrslu ofnsins á lágu álagi. „Alvarlegasta afleiðing þessa hefur verið losun lyktar, sem valdið hefur íbúum Reykjanesbæjar óþægindum.“
Stjórn félagsins hafi sett lausn þessa vandamáls í algeran forgang og hefur ráðið norska ráðgjafarfyrirtækið Multikonsult til að gera tillögur um þær endurbætur sem nauðsynlegar eru til að tryggja að verksmiðjan nái rekstrarstöðugleika og rekstrargæðum sem standist samanburð við það sem tíðkast í þeim fjölmörgu verksmiðjum sem starfa í Noregi.
Frumrannsókn sé lokið og niðurstaðan skýr um að ekki séu stórfelldir ágallar, og allar forsendur til að verksmiðjan geti náð fullum afköstum. Næsta skref sé úttekt með ljósofninn í rekstri, og hefur verið leitað til norsku loftrannsóknastofnunarinnar NILU til þess. „Óhjákvæmilegt er að við þær rannsóknir muni berast einhver lykt frá verksmiðjunni, en félagið mun í samráði við UST og með góðum fyrirvara tilkynna opinberlega um hvenær helst muni lyktar að vænta.“
Félagið leggur áherslu á að erfiðara sé að vinna að mengunarvörnum þegar rekstur ofnsins liggur niðri og því er farið fram á að rekstur ofnsins sé ekki stöðvaður þegar búið er að endurræsa hann nema að fyrir liggi rökstudd og vísindaleg niðurstaða um að hætta stafi af rekstrinum.