Norrænir ráðherrar fjölmiðlamála ætla að ráðast í stefnumótandi úttekt þar sem leiðir til þess að tryggja sjálfbært og fjölbreytt fjölmiðlalandslag á Norðurlöndum.
Miklar breytingar hafa orðið á fjölmiðlamarkaði á undanförnum árum eftir því sem fleiri fjölmiðlar sækja fram á veraldarvefnum. Vefmiðlar mega sín hins vegar lítils í samkeppni um auglýsingar þegar samkeppnisaðilarnir eru hnattræn veffyrirtæki á borð við Google, Facebook og YouTube. Ráðherrarnir ræddu þessar breytingar og mögulegar lausnir á vaxandi vanda fjölmiðlafyrirtækja.
Í fréttatilkynningu á vef norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs um fund ráðherrana er fjallað um þetta vandamál og bent á að meira en helmingur auglýsingatekna stafrænna fjölmiðla fari til erlendra fyrirtækja. Og vegna þess er „hætt við að mörg fjölmiðlafyrirtæki muni leggja upp laupana“. Það geti svo haft mikil áhrif á fjölbreytni í norrænu fjölmiðlalandslagi.
Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra Íslands, fundaði ekki með kollegum sínum á Svalbarða í gær um starfsskilyrði fjölmiðla og breyttar rekstrarforsendur vegna breytinga á auglýsingamarkaði, heldur staðgengill hans.
Tilefni umræðanna var útkoma nýrrar skýrslu um fyrstu heildargreiningu á þróun auglýsingamarkaðar á Norðurlöndum á tímabilinu 2011-2016. Skýrslan heitir „Kampen om reklamen“ á frummálinu sænsku, og heitir „Baráttan um auglýsinguna“ á íslensku.
Ráðherrarnir eða fulltrúar þeirra ræddu niðurstöður skýrslunnar og þau áhrif sem umrædd þróun mun hafa á norrænt fjölmiðlalandslag til framtíðar. Í sameiginlegri yfirlýsingu ráðherrana segir:
„Við viljum tryggja sjálfbært og fjölbreytt fjölmiðlalandslag þar sem gott jafnvægi ríkir milli ljósvakamiðla í almannaþjónustu, einkarekinna fjölmiðla, hnattrænna vefmiðla og nýjunga á sviði fjölmiðlunar. Það er grunnurinn að breiðri og frjálsri lýðræðisumræðu á Norðurlöndum. Við erum því uggandi yfir þróuninni á auglýsingamarkaði og afleiðingum hennar fyrir fjölmiðlalandslagið. Við fylgjumst náið með gangi mála í löndunum.“
„Við höfum ákveðið að ráðast í stefnumótandi úttekt á samstarfinu í von um að geta greint betur hvaða aðgerða er hægt að grípa til í sameiningu. Úttektin á að innihalda tillögur og er væntanleg fyrir næsta fund norrænu menningarmálaráðherranna.“
Nefnd fjallar um rekstrarumhverfi fjölmiðla
Illugi Gunnarsson, forveri Kristjáns Þórs í embætti menntamálaráðherra, skipaði nefnd um rekstrarumhverfi fjölmiðla í desember í fyrra. Nefndin á að fjalla um og skila tillögum um breytingar á lögum eða aðrar nauðsynlegar aðgerðir til þess að bæta rekstrarumhverfi og tryggja að á Íslandi fái þrifist fjölbreyttur markaður frjálsra fjölmiðla.
Illugi lagði fram þingsályktunartillögu þann 3. október í fyrra um athugun á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Samkvæmt henni átti hver stjórnmálaflokkur að skipa einn fulltrúa í nefndina. Ekki náðist að klára afgreiðslu tillögunnar áður en þingi var slitið fyrir Alþingiskosningarnar í haust og þess í stað kynnti Illugi það í ríkisstjórn að hann myndi skipa nefndina.
Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kom fram að fulltrúar einkarekinna fjölmiðla á Íslandi hafi vakið athygli stjórnvalda á erfiðleikum sem blasa við í rekstri þeirra og megi rekja til ýmissa utanaðkomandi aðstæðna.
Þar megi til dæmis telja til að auglýsingamarkaðurinn hérlendis hafi ekki vaxið sem skyldi þrátt fyrir batnandi efnahag þjóðarinnar og auk þess fari ætið stærri hluti auglýsingafjár til erlendra stórfyrirtækja á borð við Google og Facebook. Þá hafi staða Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði einnig takmarkandi áhrif á möguleika annarra fjölmiðla til að afla auglýsingatekna.
Vegna þess hefur verið skorað á stjórnvöld að gera „nauðsynlegar, málefnalegar og tímabærar breytingar á íslenskri löggjöf til þess að jafna samkeppnisstöðu félaga á íslenskum fjölmiðlamarkaði“.
Uppfært: Upphaflega stóð að Kristján Þór hefði fundað á Svalbarða, en hann hafði ekki tök á að vera viðstaddur.