Gengur þú með frábæra viðskiptahugmynd í maganum? Datt þér snjallræði í hug um daginn en veist ekki alveg hvar þú átt að byrja? Eða hefur þú ekki neina hugmynd en langar að spreyta þig í heimi frumkvöðla og nýsköpunar?
Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík stendur fyrir nýsköpunarhelgi í húsakynnum HR um helgina þar sem öllum er velkomið að koma og taka þátt. Um er að ræða keppni sem haldin er í fyrsta sinn í ár og hefur hún hlotið nafnið Upphafið, enda er keppninni ætlað að verða upphaf fyrirtækja framtíðarinnar.
Í kynningu keppninnar á Facebook segir að markmið keppninnar sé að kynna og hvetja til nýsköpunarstarfs, ásamt því að veita þátttakendum aðstoð við að þróa sína eigin viðskiptahugmynd.
Upphafið hefst á morgun, föstudaginn 28. apríl og lýkur á sunnudag 30. apríl. Keppnin er opin öllum, hvort sem þátttakendur mæta til leiks með hugmynd eða ekki. Þeir sem taka þátt án hugmyndar gefst þá kostur á að verða partur af teymi þeirra sem þrá að verða frumkvöðlar.
Fulltrúar nýsköpunarsetursins Icelandic Startups verða á staðnum til þess að aðstoða og leiðbeina þátttakendum við þróun hugmyndar og við val á næstu skrefum. Icelandic Startups stendur fyrir nýsköpunarkeppnum á borð við Startup Reykjavík og Gulleggið sem haldnar eru ár hvert.
Upphafið er haldið í tengslum við þriggja vikna áfangann „Nýsköpun og stofnun fyrirtækja“ sem nemendum Háskólans í Reykjavík hefur gefist tækifæri til að sækja. Sérstök áhersla verður lögð á þátttöku þeirra nemenda.