Útgerðarfyrirtækið Samherji á nú orðið 39,9 prósent hlut í norska útgerðarfyrirtækinu Nergård á móti 60,1 prósent hlut Norsk Sjømat.
Hámarkseign erlendra aðila í sjávarútvegsfyrirtækjum í Noregi er 40 prósent svo fyrirtækið er komið alveg upp að efri mörkumum.
Árið 2014 eignaðist Samherji 22 prósent í fyrirtækinu og hefur því bætt við sig sem nemur tæplega 18 prósentum af heildarhlutafé.
Í tilkynningu vegna viðskiptanna kemur ekki fram hvert kaupverðið var í viðskiptunum en umfang rekstrar Nergård, einkum í norðurhluta Noregs, er umtalsvert og starfsmenn samtals 470.
Óhætt er að segja að Samherji hafi staðið í umfangsmiklum viðskiptum að undanförnu en fyritækið seldi helmingshlut sinn í Olís þegar Hagar keypti félagið fyrir um 9,5 milljarða króna.
Hagnaður Samherja á árinu 2015 nam 13,9 milljörðum króna en á árinu 2014 nam hann 11,2 milljörðum króna.
Í efnahagsreikningi eru eignir samstæðunnar í lok árs 2015 samtals 119 milljarðar króna. Heildarskuldir og skuldbindingar voru 36 milljarðar á sama tíma og bókfært eigið fé 83 milljarðar króna.
Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 69,8% í árslok 2015. Veltufjármunir námu 38 milljörðum og veltufjármunir umfram skuldir 2,5 milljörðum króna.