Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, er sagður enn fyllri efasemda um Brexit en áður eftir kvöldverð með Theresu May, forsætisráðherra Bretlands. Þetta herma heimildir Guardian, sem segir frá.
May og Juncker snæddu saman kvöldverð í Downing-stræti í London á miðvikudag. Heimildir Guardian herma að samræður þeirra á milli um útgöngu Bretlands úr ESB og mögulegt samkomulag um það hafi endað á því að Juncker segði May að hann færi frá Downing-stræti með tíu sinnum meira af efasemdum en hann var áður.
Fólk sem vinnur náið með Juncker segir einnig að nú séu líkurnar á því að Brexit-samkomulag mistakist komnar yfir 50%. Juncker er sagður hafa hringt í kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, að loknum kvöldverðinum og tjáð henni að breski forsætisráðherrann væri á „annarri vetrarbraut“.
Talsmaður hjá ESB vildi ekki tjá sig um málið við Guardian, fyrir utan að benda á opinber ummæli Juncker um að kvöldverðurinn hefði verið uppbyggilegur fundur í vinsamlegu umhverfi.