„Það væri heiður að hitta Kim Jong-Un.“ Þetta sagði Donald J. Trump, Bandaríkjaforseti, fyrr í dag í viðtali við Bloomberg.
Mikil spenna er nú á Kóreuskaga en ríkisfjölmiðill Norður-Kóreu, KCNA, hafði eftir utanríkisráðuneyti landsins í dag að líklega yrði því hraðað að byggja upp kjarnorkuvopn til þess að vera betur undirbúin ef til hernaðar kemur af hálfu Bandaríkjanna. Í frétt KCNA segir enn fremur að Bandaríkin séu að sýna árásarvilja sem þurfi að bregðast við.
Ástandið á Kóreuskaga hefur farið hratt versnandi frá því Donald Trump tók við völdum, og Norður-Kóreumenn hófu að fjölga tilraunum sínum með langdrægar flaugar. Bandaríkjaher hefur verið að vígbúast við landamæri Suður-Kóreu og Norður-Kóreu, og þá hefur liðsafli á hafi úti einnig verið efldur.
Stjórnvöld í Japan og Suður-Kóreu hafa krafist tafarlausra aðgerða til að hindra frekari flugskeytaskot Norður-Kóreu, en síðustu þrjár tilraunir hersins þar í landi hafi mistekist. Fimm sértækar tilraunir landsins með kjarnorkuvopn hafa verið framkvæmdar, en samþykktir Sameinuðu þjóðanna heimila þær ekki.
Trump hefur sagt að herská hegðun stjórnvalda í Norður-Kóreu, með hinn óútreiknanlega Kim Jong-Un í broddi fylkingar, sé óásættanleg. Tilraunum verði að ljúka. Ef það gerist ekki, þá muni það hafa alvarlegar afleiðingar.