Emmanuel Macron, forsetaframbjóðandi í Frakklandi, mundi fá um 60 prósent atkvæða í seinni umferð forsetakosninganna ef kosið væri nú. Kosið verður á sunnudaginn. Marine Le Pen, frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar, mundi fá um 40 prósent.
Aðeins tveir frambjóðendur eru í kjöri í seinni umferð frönsku kosninganna en það eru þeir frambjóðendur sem hlutu mest og næst mest fylgi í fyrri umferðinni. Í seinni umferðinni þarf frambjóðandi að hljóta meira en helming atkvæðanna til þess að ná kjöri og taka við af Francois Hollande.
Macron og Le Pen mættust í sjónvarpskappræðum í frönsku sjónvarpi í gær og þótti flestum Macron hafa staðið sig betur. Í frétt breska ríkissjónvarpsins, BBC, er fjallað um skoðanakönnun sem gerð var eftir kappræðurnar þar sem 63 prósent þeirra sem gáfu svar sögðu Macron hafa haft betur.
Macron hefur borist stuðningur víða að, ekki síst úr alþjóðasamfélaginu enda er hann talsmaður frekari Evrópusamvinnu, andstætt Le Pen sem hefur beinlínis heitið því að draga úr alþjóðasamstarfi.
Einn þeirra sem lýst hefur yfir stuðningi við Macron er Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. Obama hefur áður talað opinskátt um að Evrópusambandsríkin verði að standa saman. Hann lýsti einnig yfir stuðningi við þá sem börðust fyrir áframhaldandi aðild Bretlands að ESB fyrir um ári síðan.
Æðsti hræðsluklerkur og Holland-herma
Í fréttaskýringu sem birtist hér á Kjarnanum í gærkvöldi er fjallað um framvindu umræðanna, þar sem Le Pen gekk mun lengra en hún hefur áður gert í stjórnmálaumræðum við keppinaut sinn. Hún gjammaði frammí, gekk fram af þáttastjórnendum og líkti Macron saman við sitjandi forseta.
„Bara eins og Hollande!“ sagði Le Pen.
Macron hélt ró sinni í kappræðunum og gaf sér tíma til þess að útskýra stefnumál sín. Hann beit þó til baka og sakaði andstæðing sinn að ljúga blákalt að frönsku þjóðinni. Macron sagði Le Pen heldur ekki hafa lagt neinar lausnir til og aðeins alið á áhyggjum og ótta meðal Frakka.
„Á móti mér situr æðsti hræðsluklerkur Frakklands,“ sagði Macron.
Áætlað var að um það bil 18 prósent kjósenda í Frakklandi hafi ekki verið búinn að gera upp hug sinn fyrir kappræðurnar.
Macron hefur notið mun meira fylgis en Le Pen síðan fyrri umferð kosninganna fór fram. Ef eitthvað er að marka skoðanakannanir þá hafa ríflega 60 prósent hugsað sér að kjósa hann en tæplega 40 prósent Le Pen.