Emmanuel Macron er nýr forseti Frakklands og allt bendir til þess að hann hafi unnið stórsigur í seinni umferð frönsku forsetakosningunum, sem fóru fram í dag. Útgönguspár benda til þess að hann hafi fengið 65,5 prósent atkvæða. Það er meira en kannanir höfðu bent til.
Macron verður yngsti forseti í sögu Frakklands. Þúsundir stuðningsmanna hans eru samankomnir við Louvre safnið í París.
Marine Le Pen fékk 34,5 prósent atkvæða samkvæmt útgönguspá. Hún hefur þegar viðurkennt ósigur sinn og ávarpað stuðningsmenn sína. Hún sagði flokk sinn vera orðinn stærsta stjórnarandstöðuflokkinn. Hún þakkaði fyrir stuðninginn við sig, og sagði stuðningsmenn sína hugrakka. Frakkar hefðu valið að halda áfram á sömu braut, valið hefði staðið milli þjóðernissinna og alþjóðasinna.
Le Pen og Þjóðfylkingin eru ekki af baki dottin, og munu nota árangurinn í forsetakosningunum í komandi þingkosningum.