Það er ástæða til þess að rökræða hvort það sé hægt að halda eigendastefnu Hörpu til streitu segir Melkorka Ólafsdóttir, dagskrárstjóri tónlistar í Hörpu. Hún segir bilið í rekstrinum oft nær ómögulegt að brúa.
Kjarninn ræddi við Melkorku um dagskrá Hörpu í sumar og rekstur hússins.
Tónleika- og ráðstefnuhúsið Harpa er í eigu íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar og um rekstur hússins gildir sérstök eigendastefna. Íslenska ríkið ræður 54 prósent hlut og Reykjavík 46 prósent.
Í eigendastefnunni segir að húsið eigi að bjóða upp á fjölbreytt úrval viðburða og auka á menningarlífið. Kjarninn greindi frá því í ágúst í fyrra að frá því að Harpa hóf starfsemi 2011 hefur rekstrarfélag hennar tapað 2,5 milljörðum króna. Til viðbótar hafa ríki og borg greitt fimm milljarða króna í fjármagnskostnað og 500 milljónir í rekstrarstyrki. Samtímis hefur fjöldi tónleikagesta í Hörpu margfaldast.
Spurð hvað ráði því hvaða verkefni Harpa ræðst beinlínis í segir Melkorka þau verkefni í raun vera afar fá því Harpa fari ekki í samkeppni við viðskiptavini sína. Markmiðið sé þó alltaf að ljúka verkefnunum þannig að þau skili hagnaði. Það sé hins vegar hlutverk Hörpu að standa fyrir viðburðum sem aðrir á markaði treysti sér ekki til að standa fyrir. Harpa eigi að bæta upp fyrir þann markaðsbrest.
„Það hafa verið viðburðir eins og ballettsýningarnar og heimsóknir stóru erlendu hljómsveitanna eins og Berlínarfílharmoníunnar og Gautaborgarsinfóníunnar. Það er ein kammertónlistarhátíð á ári, Midsummer Music, sem Víkingur Heiðar stýrir. Þetta eru allt viðburðir sem enginn annar tónleikahaldari treystir sér í að standa að en þurfa þó að vera í framboðsflórunni ef við yfirleitt viljum að hún endurspegli raunveruleikann og umheiminn.“
Melkorka segir að með tilkomu Hörpu hafi opnast dyr út í hinn stóra heim og tækifæri til að kynna hvað sé í gangi fyrir utan landsteinana. Jafnframt sýni erlendar hljómsveitir og tónlistarmenn gífurlegan áhuga á að spila í Hörpu, Eldborg sé þegar talin með eftirsóttari tónleikastöðum í heimi.
„Tónleikahaldararnir sem við eigum í mestum viðskiptum við hafa verið mjög öflugir í að flytja inn popptónlistarmenn, svo sá bransi rúllar nokkuð vel. En það að flytja inn 100 manna hljómsveit er brjálæðislega kostnaðarsamt og flókið. Samt þurfum við að finna leiðir til þess að gera það án þess að tapa á því.“
Hvernig hefur það gengið?
„Misjafnlega vel. Það er alveg ástæða til þess að rökræða það hvort það sé hægt að halda því áfram,“ svarar Melkorka. „Það eru ýmsar leiðir farnar og færar en það er á hreinu að Harpa þarf aukið fjárframlag til þess að geta viðhaldið breidd í tónleikaframboði. Við höfum reynt að horfa til samstarfs og samvinnu, til dæmis með því að styðja við þá sem eru að skipuleggja tónleikaraðir og hátíðir sem myndu annars ekki gerast, eins og til dæmis Jazzhátíð Reykjavíkur.“
Til þess að geta framfylgt þessari eigendastefnu, fær Harpa einhverskonar styrki frá ríkinu eða opinberum sjóðum?
„Það er rosalega lítið. Við höfum verið með nokkra styrktaraðila sem hafa verið fyrirtæki. Fyrir San Fransisco-ballettinn fengum við líka góðan styrk frá menntamálaráðuneytinu, en slíka styrki þarf að sækja fyrir hvert ár,“ segir Melkorka.
Erlendis er allur gangur á því hvernig styrkveitingar fara fram til menningarstofnana. Sums staðar eru heilu markaðsdeildirnar sem hafa það eina hlutverk að sækja styrki fyrir rekstri tónlistarhúsa.
„Það á til dæmis við hjá kollegum okkar í South Bank Center í London. Þar var mér sagt að framlag hins opinbera væri að minnka og aukast í einkageiranum, en að á sama tíma vilji einkageirinn vera minna sýnilegur út á við. Það þykir ekki töff að vera með stóra auglýsingaborða eða flíka nafninu sínu of mikið. Heldur koma styrktaraðilarnir inn í sköpunarferlið eða fá að taka þátt í viðburðinum á einhvern annan hátt. Það breytast aðeins áherslurnar.“
„Þetta er ein af stóru áskorunum okkar. Af því að eins og allir vita þá er Harpa rekin með tapi. Mér líður þess vegna eins og ég sé að reyna að brúa eitthvað bil sem er bara ómögulegt eins og staðan er í dag,“ segir Melkorka og bætir við að hér takist á spurningar um hugsjónir og gildi; hvernig samfélag viljum við búa í og hvers konar menningarlíf viljum við?
„Það er líka spurning hvort það hafi verið vitlaust sett upp að ætla Hörpu að standa undir sér. Að mínu mati er eðlilegt að það þurfi að borga með menningu, það þarf að fjárfesta í henni, okkur öllum til heilla.“