Þingfararkostnaður alþingismanna nam rúmlega 168 milljónum króna í fyrra, sem samsvarar meðalkostnaði upp á rúmar 4,7 milljónir króna á hvern þingmann. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Unnar Brár Konráðsdóttur, forseta Alþingis, við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata.
Þetta eru greiðslur sem þingmenn fá ofan á þingfararkaup sitt, sem er nú 1.101.194 krónur á mánuði. Þingmenn eiga rétt á greiðslum vegna húsnæðis- og dvalarkostnaðar, ferðakostnaðar í kjördæmi og starfskostnaði. Að meðaltali er því aukagreiðsla vegna þessa um 396 þúsund krónur á mánuði, en sú tala gefur ekki rétta mynd vegna þess að þingmenn eiga mismunandi rétt á greiðslum eftir búsetu.
Alþingismenn fyrir kjördæmi utan höfuðborgarsvæðisins fá til dæmis 134 þúsund krónur í húsnæðis- og dvalarkostnað á mánuði. Hins vegar geta þingmenn í þessum kjördæmum fengið borgað fyrir að keyra milli Reykjavíkur og heimilis, og þá fá þeir aðeins greiddan þriðjung af húsnæðis- og dvalarkostnaði, eða 44.680 krónur. Þeir þingmenn sem eiga aðalheimili utan höfuðborgarsvæðisins en halda annað heimili í Reykjavík geta óskað eftir því að fá 40 prósenta álag á þessar greiðslur, sem eru 53.616 krónur.
Ákveðið var í byrjun þessa árs að lækka greiðslur vegna ferðakostnaðar og starfskostnaðar þingmanna, til þess að koma til móts við mikla gagnrýni á launahækkanir sem kjararáð úrskurðaði um á kjördag í fyrra.
„Ferðakostnaður lækkar um 54 þús. kr. sem jafna má til um 100 þús. kr. í launagreiðslu, og starfskostnaður lækkar um 50 þús. kr.; samanlagt má jafna þessari lækkun við 150 þús. kr. fyrir skatt. Samkvæmt þessum breytingum eiga því greiðslur til þingmannna, þ.e. þingfararkaup og fastar mánaðarlegar greiðslur, að vera innan þeirrar launaþróunar sem orðið hefur frá því að kjararáð hóf að úrskurða um þingfararkaup árið 2006,“ sagði þá í tilkynningu frá forseta Alþingis.
Ferðakostnaður alþingismanna innanlands er einnig greiddur af Alþingi, og hann nam ríflega 66 milljónum króna í fyrra, eða um milljón á hvern þingmann að meðaltali. Það skiptist niður í fargjöld, dvalarkostnað, leigubílakostnað, bílaleigubílakostnað og greiðslur vegna aksturs á eigin bílum.
Mestur er kostnaðurinn vegna aksturs þingmanna á eigin bílum, tæplega 37 milljónir króna, en skrifstofa Alþingis hefur markvisst reynt að ná þessum kostnaði niður og fá þingmenn til að nota bílaleigubíla í stað eigin bíla. Kjarninn greindi frá þessu árið 2015. Skrifstofa Alþingis gerði samninga við bílaleigufyrirtæki í þessum tilgangi, og kostnaður við bílaleigubíla var tæplega 15 milljónir króna í fyrra. Í svörum Unnar Brár sést að þetta virðist hafa hjálpað til við að minnka kostnað, frá árinu 2013 hafa greiðslur þingsins vegna aksturs þingmanna á eigin bílum farið úr tæpum 59 milljónum niður í tæpar 37 milljónir, og á sama tíma jókst kostnaður við bílaleigubíla úr rúmum átta milljónum í tæpar 15.