Fjölbrautaskóli Suðurlands, FSu, var með jákvæðan höfuðstól sem nam 73 milljónum króna og 84 milljóna rekstrarafgang í lok árs 2016. Eiginfjárstaða allra framhaldsskólanna var jákvæð um 83 milljónir í lok sama árs. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis.
Rekstur framhaldsskólanna hefur staðið höllum fæti undan farin ár. Gerð var úttekt á þróun á rekstri framhaldsskólana á árunum 2008-2013 af hálfu Ríkisendurskoðunar. Sú úttekt sýndi að 16 af 28 framhaldsskólum hefðu verið reknir með halla árið 2013 og sameiginleg rekstrarafkoma skólanna hefði verið neikvæð um 109 milljónir króna og eiginfjárstaða þeirra neikvæð um 99 milljónir. Í þeirri úttekt kemur fram að fjárhagsvanda framhaldsskólana megi rekja til samdráttar í fjárveitingum undanfarinna ára.
Jafnt yfir alla gengið
Viðbrögð menntamálaráðuneytisins voru að meðal annars að lækka launastiku reikniforrits sem ráðuneytið notast við til að áætla rekstrarkostnað. Samkvæmt Ríkisendurskoðun olli það því að samdráttur fjárveitinga dreifðist jafnt á alla skóla. Í umfjöllun Kjarnans kemur fram að það sé álit Ríkisendurskoðunar að flatur niðurskurður af þessum toga sé vafasamur. „Ekki aðeins leggst hann misþungt á einstaka skóla og mest á bóknámsskóla þar sem laun vega hlutfallslega þyngst heldur vinnur hann einnig gegn þeirri viðleitni að forgangsraða í skólakerfinu og taka á vandamálum einstakra skóla.“
Í lok árs 2016 voru 11 af 27 framhaldsskólum reknir með halla og voru þar af sjö skólar með neikvæða eiginfjárstöðu. Hinir fjórir skólarnir sem reknir voru með halla þurftu að ganga á jákvætt eigið fé til að mæta halla í rekstri.
Þótt að eiginfjárstaða framhaldsskólanna í heild sé jákvæð þá eru 40 prósent þeirra reknir með halla og 25 prósent þeirra með neikvæða eiginfjárstöðu. Ríkisendurskoðun telur að menntamálaráðuneytið hafi brugðist við fjárhagsvanda framhaldsskólana í heild í stað þess að taka sérstaklega á rekstrarvanda einstakra skóla. Þetta hefur leitt til þess að FSu standi nánast einn undir því að samanlögð eiginfjárstaða framhaldsskólanna er jákvæð. „Mikið ójafnræði er því milli einstakra skóla og hvetur Ríkisendurskoðun ráðuneytið til að bæta úr því.“ segir í skýrslunni.