Niðurstöður skýrslu Alþjóðlegu Gallupsamtakanna benda til þess að meirihluti íbúa 66 þjóða lítur svo á að enginn kynþáttur, menningarheimur eða trúarbrögð sé öðrum æðri. Niðurstöðurnar eru sérstaklega afgerandi meðal íbúa á Vesturlöndum.
Spurt var um hversu sammála viðmælendur væru eftirfarandi fullyrðingum:
- Til er einn kynþáttur sem er öðrum æðri
- Til er einn menningarheimur sem er öðrum æðri
- Til eru ein trúarbrögð sem eru öðrum æðri.
Könnunin var lögð fyrir 66.541 einstakling í 66 löndum á tímabilinu október-desember 2016. Vikmörk í könnuninni eru 3-5%, miðað við 95% öryggisbil.
Meirihluti viðmælanda í Vestur-Evrópu, Norður-Ameríku og Ástralíu hafna fullyrðingunum þremur með nokkuð afgerandi hætti, en niðurstöður annarra heimshluta eru tvísýnni.
Samkvæmt Kancho Stoychech, forseta Alþjóðlegu Gallupsamtakanna, eru líkur á því að tengsl séu milli óstöðugleika þjóða annars vegar og viðhorfa þeirra til kynþáttar, menningarheims og trúarbragða hins vegar.
Viðhorf Íslendinga virðast tiltölulega frjálslynd, en hlutfall þeirra sem segjast ósammála fullyrðingunum þremur er þriðja hæsta meðal aðspurðra þjóða. Aðeins er hlutfall viðmælenda í Svíþjóð og Frakklandi hærra.
Á Íslandi var könnunin lögð fyrir Viðhorfahóp Gallup undir lok nóvember 2016. Heildarúttaksstærð var 1.792 og þátttökuhlutfall var 59,4%.