Í ljósi jákvæðra viðbragða við vetrarflugi milli Keflavíkur og Akureyrar segist Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, binda vonir við að flogið verði frá Keflavík til annarra innanlandsflugvalla, þá helst Egilstaði og Ísafjörð. „Slíkt myndi gjörbreyta forsendum varðandi heilsársferðaþjónustu á þessum stöðum”, segir Þórdís í viðtali á vef Túrista.
Undir lok febrúarmánaðar hóf Air Iceland Connect áætlunarflug milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar, í fyrsta skipti utan sumartíma. Viðbrögð flugleiðarinnar hafa verið jákvæð, en heildarfjöldi farþega flugleiðarinnar fyrstu tvo mánuðina var 2700. Umrædd aukning var helmingur farþegaaukningar á Akureyrarflugvelli fyrstu fjóra mánuði ársins. Þórdís Kolbrún segir jákvæðu viðbrögðin vera vísbendingu um að innanlandsflugið geti eflst.
Ráðherrann hefur talað fyrir betri dreifingu ferðamanna um landið, en í viðtali við Kjarnann nefndi hún gjaldtöku ferðamanna og möguleikann á uppbyggingu alþjóðaflugvallar á Egilsstöðum sem möguleg tæki til dreifingar. Í viðtali við Túrista nefndi ráðherra einnig mikilvægi þess að hafa öflugt innanlandsflug: „..Helst vildum við sjá öflugt flug á heilsársgrundvelli. Áfangastaðir eru í mjög mörgum tilfellum framboðsdrifnir m.t.t. flugs og því er mikilvægt að opna fleiri áfangastaði á Íslandi, hvort heldur með beinu millilandaflugi eða greiðum tengingum við Keflavíkurflugvöll”