Búið er að handtaka tólf einstaklinga í Barking í austurhluta London í tengslum við hryðjuverkin í borginni í gærkvöldi.
Sjö eru nú látnir eftir hryðjuverkin, og tæplega 50 eru særðir.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hélt ræðu þar sem hún sagði að allt of mikið umburðarlyndi væri gagnvart öfgum í Bretlandi, og lofaði að hún myndi leggja meira í baráttuna gegn íslömskum hryðjuverkasamtökum. Nú væri nóg komið. Hún gagnrýndi internetfyrirtæki og sagði þau þurfa að koma í veg fyrir að öfgasamtök næðu að þrífast, en einnig að það þyrfti að takast á við örugg svæði fyrir hryðjuverkamenn í raunheimum, og það myndi krefjast erfiðra samtala.
Verkamannaflokkurinn hefur sakað May um að hafa svikið samkomulag flokkanna á þingi um að gera hlé á kosningabaráttu sinni vegna hryðjuverkanna.
Hvítum sendiferðabíl var ekið á gangandi vegfarendur á Lundúnabrúnni um klukkan tíu í gærkvöldi, og svo hlupu þrír menn út úr bílnum og stungu fólk með hnífum. Að sögn lögreglu voru mennirnir þrír klæddir gervisprengjuvestum. Mennirnir voru allir skotnir til bana af lögreglu í gærkvöldi, átta mínútum eftir að henni hafði fyrst verið gert viðvart um árásina.
Lögregla óskar nú eftir því að fólk sem gæti átt myndir eða myndskeið af mönnunum þremur afhendi efnið. Þá hefur verið greint frá því að lögreglueftirlit verði aukið næstu daga, en á fimmtudag fara fram þingkosningar í Bretlandi.