Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra verður að vega og meta mjög alvarlega hvort henni sé stætt að sitja áfram í embætti ef niðurstaða dómstóla verður sú að hún hafi beitt ómálefnalegum sjónarmiðum við tilnefningu dómara í Landsrétt. Þetta segir Jón Steindór Valdimarsson, varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í sjónvarpsþættinum Kjarnanum á Hringbraut sem skipan dómara í Landsrétt verður til umfjöllunar. Þátturinn verður frumsýndur klukkan 21:30 í kvöld.
Dómnefnd hafði komist að þeirri niðurstöðu að 15 af 33 umsækjendum væru hæfastir í þau 15 embætti dómara við Landsrétt sem í boði eru. Sigríður ákvað að breyta röðun listans með þeim hætti að fjórir sem dómnefnd tilnefndi hurfu af honum og fjórum öðrum var bætt við. Hún rökstuddi þessa ákvörðun sína með því að hún vildi gera dómarareynslu umsækjenda hærra undir höfði. Stjórnarandstaðan taldi að ráðherrann hefði ekki rökstutt breytingarnar sínar nægilega vel og vildi að ákvörðun í málinu yrði frestað þannig að hægt yrði að vinna það betur. Var það meðal annars gert vegna harðrar gagnrýni frá lögmönnum sem skiluðu umsögnum inn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og vegna þess að rökstuðningurinn gekk ekki upp ef hann miðað við stigagjöf dómnefndar fyrir dómarareynslu einvörðungu.
Málið var hins vegar samþykkt með atkvæðum stjórnarliða einvörðungu. Einn þeirra umsækjenda sem var fjarlægður af listanum, Ástráður Haraldsson, hefur þegar tilkynnt að hann muni stefna íslenska ríkinu og ráðherranum sjálfum vegna málsins og telur hana hafa brotið lög. Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem einnig var fjarlægður af listanum, hefur einnig sagt að hann íhugi að leita réttar síns.
Jón Höskuldsson hefur sömuleiðis sagt að hann liggi undir feldi um næstu skref en Eiríkur Jónsson, sem dómnefndin mat sjöunda hæfasta umsækjandann, hefur ekkert viljað láta hafa eftir sér opinberlega um hvort hann ætli að höfða mál eða ekki.
Á ábyrgð dómsmálaráðherra
Jón Steindór segir að fyrir liggi að látið verði reyna á hvort embættisfærsla Sigríðar hafi verið lögleg eða ekki fyrir dómstólum. Það hafi reyndar legið fyrir að líklega yrði reynt á það líka ef listi dómnefndar hefði verið látinn standa óbreyttur. Jón Steindór segir að dómsmálaráðherra hafi þegar lýst því yfir að hún beri pólitíska ábyrgð á skipuninni og hann segist sannarlega vona að stjórnarliðar hafi staðið rétt að ákvörðuninni. „Ef það hefur ekki verið gert þá er það á ábyrgð dómsmálaráðherra“.
Aðspurður um hvernig hún ætti að axla þá ábyrgð segir Jón Steindór að komi það í ljós að ráðherrann hafi beitt ómálefnalegum sjónarmiðum við ákvörðunartöku sína „þá held ég að hún verði að hugsa mjög alvarlega sinn gang.“
Aðspurður um hvað felist í segir Jón Steindór að ráðherrann verði þá „að vega og mæta hvort honum sé stætt eftir það ef hann er dæmdur fyrir að hafa staðið ómálefnalega að tilnefningunum.“