Persónuvernd hefur úrskurðað að símaskrár- og upplýsingavefurinn Já.is má ekki birta myndir af heimilum fólks með skráningum á vefnum. Já.is mun aftengja myndirnar á næstu dögum, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Persónuvernd hóf frumkvæðisathugun á birtingum myndanna í nóvember í fyrra. Margrét Gunnlaugsdóttir, vöru- og viðskiptaþróunarstjóri Já, segir fyrirtækið alltaf hafa átt í góðu samstarfi við Persónuvernd í tengslum við götumyndasafn sitt. Það verkefni hófst árið 2013.
„Myndirnar verða teknar út strax á næstu dögum,“ segir Margrét og bendir á að úrskurður Persónuverndar snúist um ákveðið birtingarform myndanna. Myndunum verður ekki eytt úr gagnagrunninum heldur verður klippt á tenginguna á milli þeirra og einstakra skráninga.
Úrskurður Persónuverndar nær aðeins yfir skráningar einstaklinga á vefnum en ekki fyrirtækja eða félaga. Þess vegna mun áfram birtast mynd af höfuðstöðvum Kjarnans við Laugaveg 3 á Já.is
Í athugasemdum Já.is við athugun Persónuverndar segir að þessi götumyndarþjónusta eigi sér málefnalegan tilgang og sé í eðli sínu nátengd kjarnastarfsemi Já hf., fyrirtækisins sem rekur vefinn. „Atvinnu- og samkeppnishagsmunir teljist ótvírætt til lögmætra hagsmuna, en Já hf. sé til dæmis í samkeppni við Google á þessu sviði.“
Í götusjá Já.is eru öll andlit, skráningarnúmer ökutækja og þess háttar gerð ógreinanleg. Svipaða þjónustu má sækja á vefinn Google Maps og skoða götumynd stærstu þéttbýlissvæða á Íslandi. Munurinn á þjónustu Já.is og Google er hins vegar sá að götumynd Já.is er beintengd upplýsingum í símaskránni.
Já.is bendir á að samkvæmt könnunum sem fyrirtækið hafi látið gera hafi lang flestir þeir sem skráðir voru á vefinn sagst vita að mynd af heimili þeirra hafi verið tengt skráningu þeirra á vefnum. Í öllum tilvikum hafi fyrirtækið orðið við beiðnum um að myndirnar séu fjarlægðar og aftengdar skráningunni. Slíkar beiðnir væru hins vegar sjaldgæfar, í mesta lagi fimm á mánuði.
Niðurstaða Persónuverndar byggir á því að persónuupplýsingar sem skráðar eru „í prentuðum og rafrænum skrám og í upplýsingaþjónustu um símanúmer skuli takmarkast við þær upplýsingar sem þarf til að bera kennsl á áskrifanda nema áskrifandinn hafi veitt ótvíræða heimild til annars. Myndir af heimilum einstaklinga teljast, að mati Persónuverndar, ekki til slíkra upplýsinga.“
Allir sem skráðir eru í gagnagrunn Já.is verða jafnframt að hafa veitt ótvírætt samþykki fyrir að vinna megi persónugreinanleg gögn um sig og birta þau á vefnum, samkvæmt úrskurðinum.
Öll vinnsla persónuupplýsinga verður jafnframt að fullnægja þeim grunnkröfum sem nefndar eru í lögum. Í úrskurðinum segir að vinnsla persónuupplýsinganna geti „vart talist sanngjörn nema hinn skráði geti fengið vitneskju um hana og eigi kost á fullnægjandi upplýsingum um vinnubrögð, vinnuferli og annað er lýtur að vinnslunni. Persónuvernd telur að með vísan til þessa hafi Já.is borið að upplýsa hina skráðu og fræða þá um vinnsluna, þ.e. birtingu mynda af heimilum þeirra, áður en hún fór fram.“
Já.is hefur frest til 19. júní næstkomandi til þess að lýsa fyrir Persónuvernd hvernig félagið hyggist tryggja að birting þessara persónuupplýsinga fari ekki í bága við lög um persónuvernd.