Samanlögð losun gróðurhúsalofttegunda frá Evrópusambandinu og Íslands jókst í fyrsta sinn síðan árið 2010 árið 2015. Aukningin nemur 0,5 prósentum milli áranna 2014 og 2015.
Tölur og yfirlit um losun hvers og eins lands er áætluð út frá losunarbókhaldi einstakra landa sem skilað var í ár fyrir árið 2015.
Auknum samgöngum í Evrópu er kennt um meiri losun gróðurhúsalofttegunda. Framfarir í orkusparneytnari samgöngutækjum duga ekki til þess að stemma stigu við auknar samgöngur, hvort sem það er á landi eða í lofti.
Vegasamgöngur valda fimmtungi allrar mengunar Evrópulanda. Losun frá þessum geira jókst annað árið í röð, nú um 1,6 prósent árið 2015. Losun frá flugsamgöngum innan Evrópu nemur um fjórum prósentum af heildarlosuninni. Þar jókst losunin um 3,3 prósent.
Umhverfisstofnun Evrópu fjallar um þetta á vef sínum.
Þar segir enn fremur að aukningin losunarinnar sé lítil í samanburði við mesta hagvöxt í Evrópu síðan árið 2007. Árið 2015 nam hagvöxtur 2,2 prósentum. Árið áður hafði losun í Evrópu minnkað um fjögur prósent.
Á árunum 1990 til 2015 hefur Evrópusambandinu (ESB) tekist að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 22,1 prósent, samkvæmt losunarbókhaldi sambandsins. Markmið ESB var að minnka losun um 20 prósent til ársins 2020, á seinna skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar. Á sama tíma hefur hagkerfi Evrópusambandsins vaxið um 50 prósent.
„[...] sem sýnir að efnahagsvöxtur til langs tíma er mögulegur um leið og dregið er úr útstreymi gróðurhúsalofttegundar,“ segir í frétt Umhverfisstofnunar Evrópu.
Helstu ástæður þess að losun hefur minnkað í Evrópusambandinu er sagðar vera áhrif Evrópulöggjafar og löggjafar einstakra landa um loftslagsmál. Aukin reglusetning hefur leitt til aukinnar notkunar endurnýjanlegra orkugjafa, notkunar umhverfisvæns eldsneytis og framfarir í orkusparnaði.
Þá hafa kerfislægar breytingar í átt að þjónustumiðaðra hagkerfis stuðlað að því að losun er minni. Það þarf hins vegar ekki að þýða að losunin hafi horfið, heldur hefur vöruframleiðsla færst frá Evrópu til annarra heimshluta á tímabilinu.
Aðrar ástæður sem taldar eru til eru áhrif efnahagshrunsins árið 2008 og mildari vetur sem hafa gert orkuþörf til húshitunar minni.
Bretland best og viðskiptakerfið virkar
Aðrar niðurstöður losunarbókhaldsins fyrir árið 2015 sýna að Bretland stendur sig best í minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Mest aukning losunar var hins vegar frá Spáni, Ítalíu og Hollandi.
Viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir – sem Ísland er aðili að í gegnum EES-samninginn – virðist jafnframt virka til þess að knýja á um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Í það minnsta ef þeir geirar sem falla undir viðskiptakerfið eru bornir saman við þá geira sem ekki falla þar undir. Minnkun útstreymis frá geirunum sem falla undir kerfið nam 0,7 prósentum á milli ára árið 2015 (þar eru flugsamgöngur milli landa undanskildar), samanborið við geirana sem ekki falla undir viðskiptakerfið þar sem útstreymi jókst um 1,4 prósent.