Samkeppniseftirlitið hefur gefið frá sér yfirlýsingu um að hvetja til aukinnar samkeppni við innkaup á lyfjum á Íslandi. Yfirlýsingin kom í kjölfar Kastljósumfjöllunar þann 1. júní um einokun lyfjaheildsala á lyfjakaupum Landspítalans.
Samkvæmt Kastljósumfjölluninni hefur Landspítalinn orðið af milljarða sparnaði vegna innkaupalaga hins opinbera sem torveldur Landspítalanum að kaupa lyf af öðrum en íslenskum dreifingaraðilum.Tvær heildsölur, Distica og Parlogis, sjá um dreifingu og sölu lyfja á Íslandi fyrir öll stærstu lyfjafyrirtæki heims, en skortur á samkeppni á þeim markaði hefur leitt til hás lyfjaverðs og lítils úrvals lyfjategunda.
Í umfjölluninni kemur fram að hagsmunaaðilar íslenskra lyfjafyrirtækja hafi torveldað Landspítalanum að taka þátt í lyfjaútboði með öðrum Norðurlöndum. Hindrunin hafi falist í því að krefjast samkeppnismats frá Samkeppniseftirlitinu áður en tekið er þátt í útboðinu. Í yfirlýsingu Samkeppniseftirlitsins kemur hins vegar fram að engin hindrun felist í umræddu samkeppnismati. Enn fremur er vakin athygli á því að Landspítalinn hafi aldrei reynt á að sækja um samkeppnismatið.
Samkeppniseftirlitið telur að það sé full þörf á að virkja betur samkeppni við
innkaup á lyfjum á Íslandi. Til dæmis væri það hægt með sameiginlegum innkaupum
með öðrum Norðurlandaþjóðum, líkt og greint var frá í Kastljósumfjölluninni. Enn
fremur hyggst Samkeppniseftirlitið fylgja þessu máli nánar eftir.