Sigurvin Ólafsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri DV um nokkurt skeið, hefur tekið við starfi ritstjóra hjá miðlinum. Kolbrún Bergþórsdóttir verður áfram ritstjóri við hlið hans. Frá þessu er greint á Vísi.is.
Þar segir Sigurvin að hann hafi einhvern tíma verið fréttamaður á RÚV, í sumarstarfi. „Fyrir rúmum tíu árum. Annað er það nú ekki. Svo hef ég verið að vinna í kringum blaðið núna síðustu mánuði.“ Hann segist ekki vita hvort blaðið taki miklum breytingum með aðkomu hans. Það sé „ekki eins og ég sé að koma úr öðru ritstjórastarfi. Ég spinn þetta einhvern veginn áfram. Ég á eftir að dýfa mér á kaf í þetta.“
Í frétt á DV.is er auk þess greint frá því að Björn Ingi Hrafnsson verði ritstjóri Eyjunnar og Kristjón Kormákur Guðjónsson er nýr ritstjóri DV.is og Pressunnar.
Miklar væringar hafa verið í kringum Pressuna, eiganda DV, og tengda aðila undanfarnar vikur. Tilkynnt var um það 18. apríl að hlutafé útgáfufélagsins Pressunnar yrði aukið um 300 milljónir króna. Samhliða átti Björn Ingi Hrafnsson, stofnandi Pressunnar og sá sem leitt hefur yfirtökur hennar á öðrum miðlum undanfarin ár, að stíga til hliðar.
Kjarninn greindi frá því skömmu síðar að endurskipulagning Pressusamstæðunnar væri í uppnámi. Í ljós hefði komið að þær 300 milljónir króna sem tilkynnt hefur verið um að setja ætti inn í samstæðuna dugi ekki til. Gatið sem þurfi að brúa til að gera hana rekstrarhæfa sé nálægt 700 milljónum króna að þeirra mati.
17. maí greindi Kjarninn frá því að þeir fjárfestar sem ætluðu að setja nýtt hlutafé inn í Pressusamstæðuna væru nær allir hættir við. Félag í eigu Halldórs Kristmannssonar, Róberts Wessman, Árna Harðarsonar, Hilmars Þórs Kristinssonar og Jóhanns G. Jóhannssonar, Fjárfestingafélagið Dalurinn ehf., ætlaði að verða langstærsti eigandi Pressunnar og koma inn með 155 milljónir króna af nýju hlutafé.
Útgáfudögum DV hefur verið fækkað í einn og reynslumiklu starfsfólki verið sagt upp í tilraun til að rétta reksturinn af.